Skip to main content

Kostnaður við klósett stendur í stórfyrirtækjum á Djúpavogi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. mar 2023 13:50Uppfært 13. mar 2023 13:50

Útlit er fyrir að engin salernisaðstaða verði sett upp í húsnæði Kjörbúðarinnar á Djúpavogi en lengi hefur verið kallað eftir slíkri aðstöðu í húsinu. Skiptir þar engu að Múlaþing er reiðubúið að koma að rekstri slíks salernis.

Fjallað var um þetta í heimastjórn Djúpavogs fyrir helgi en köll hafa lengi verið eftir góðri salernisaðstöðu og þar fyrst og fremst verið að horfa til gesta og ferðafólks.

Hefur starfsmaður heimastjórnar átt í viðræðum við Samkaup, eiganda Kjörbúðarinnar, vegna málsins en auk versluninnar eru í sama húsi Landsbankinn, Pósturinn og Vínbúðin. Auk þess rekur N1 eldsneytisdælur fyrir utan húsið. Svörin hafa verið á þá leið að uppsetning á salerni sé kostnaðarsöm framkvæmd sem Samkaup hafi ekki hug á að taka á sig. Aðrir aðilar í húsinu sýna því heldur engan áhuga.

Heimastjórnin lét bóka mikla furðu að svo stöndug fyrirtæki sem hér um ræðir segi kostnað standa í vegi fyrir að koma upp einfaldri salernisaðstöðu og fól starfsmanni að koma þeim áherslum á borð stjórna viðkomandi fyrirtækja.