Lárus Heiðarsson nýr oddviti Fljótsdalshrepps

„Mér líst bara vel á þetta verkefni en ég hef verið varaoddviti í býsna mörg ár og þekki því nokkuð vel hvað felst í þessu,“ segir Lárus Heiðarsson, sérfræðingur hjá Skógræktinni og nýkjörinn oddviti Fljótsdalshrepps.

Tilkynnt var í desembermánuði að kjörinn oddviti hreppsins, Jóhann F. Þórhallsson, hygðist segja sig frá embættinu í bili af persónulegum ástæðum. Kosning nýs oddvita fór því fram á sveitarstjórnarfundi sem fram fór í gær og kom hlutverkið í hlut Lárusar. Kosningar í hreppnum eru persónukosningar og því koma allir íbúar til greina í slík embætti nema séu löglega undanþegnir.

Sjálfur segist Lárus vita að embættið sé skemmtilegt enda jákvætt að hafa áhrif á sitt nærsamfélag og allmikil uppbygging eigi sér stað í hreppnum þessi dægrin.

„Ég biðst ekkert undan þessu enda lengi komið að málum er varða nærsamfélagið okkar en einhverra hluta vegna er ég alltaf kosinn þó aldrei hafi ég boðið mig fram,“ segir Lárus í glettnistón. „En ég býst við að það þýði að ég sé að gera eitthvað rétt.“

Samkvæmt reglum Fljótsdalshrepps skal kjósa oddvita í júní á hverju ári til eins árs í senn og því mun Lárus gegna starfi oddvita til þess tíma að minnsta kosti. Aðspurður um hvort hann hafi áhuga að vera lengur tekur Lárus ekki illa í það.

„Ég geri bara það sem ég er kosinn til og geri það sem mér er sagt að gera. Það er aldrei leiðinlegt að taka þátt í  svona en þetta bætir vissulega við vinnustundirnar enda ég í fullri vinnu annars staðar og mikið að gera þar þannig að þetta er smá aukaálag ofan á það.“

Eitt hlutverk oddvita er að taka sæti í nefndum utan hreppsins eins og í stjórn Austurbrúar og Sambands austfirskra sveitarfélaga. Fráfarandi oddviti, Jóhann F. Þórhallsson mun áfram sitja í þeim nefndum sem og sveitarstjórn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.