Leggja ekki til breytingu á loðnukvótanum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 12. des 2022 17:59 • Uppfært 12. des 2022 17:59
Minna fannst af loðnu í leitarleiðangri sem farinn var í síðustu viku en vonast var eftir og þess vegna verður ekki gefinn út aukinn kvóti að sinn. Beitir NK, skip Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, er þó búinn að veiða rúmlega 1000 tonn.
„Niðurstaðan er sú að það er lítið gengið inn á svæðið enn. Við væntum þess að loðnan liggi enn undir ís fyrir norðan. Við sáum loðnu við hafísröndina fyrir norðvestan land sem er klár vísbending um að við séum að missa loðnu undir ísnum,“ segir Guðmundur J. Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarveiðisviðs Hafrannsóknastofnunar.
Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson, rannsóknaskip stofnunarinnar, komu til hafnar í gær eftir að hafa leitað að loðnu fyrir vestan og norðan land síðan á mánudag. Beitir NK fór á móti skipunum úr austri.
Guðmundur segir að minna hafi sést af loðnu í leiðangrinum en vonast var eftir og lítið sem ekkert fyrir austan Kolbeinseyjarhrygg. Beitir hafi nánast ekkert fundið og rannsóknaskipin ekki heldur síðustu tvo daga leiðangursins. Því er engin ástæða til að breyta kvótanum að svo stöddu.
Um 140 þúsund tonn koma í hlut íslensku skipanna á vertíðinni miðað við ráðgjöf sem gefin var út í haust. Ráðgert er að fara í annan leiðangur um miðjan janúar. Árangurinn úr honum ræður endanlegum kvóta.
Eftir leitina fór Beitir beint á veiðar og Víkingur AK frá Brimi kom til móts við hann. Skipin hafa verið austan Kolbeinseyjarhryggjarins og eru eru nú norður af Skötugrunni.
Grétar Örn Sigfinnsson, útgerðarstjóri Síldarvinnslunnar, segir Beiti vera búinn að veiða rúmlega 1000 tonn og hafa fengið um 200-300 tonn í holi. Loðnan lítur ágætlega út, um 40 stykki í kílóinu og blandast vel milli kynja en hún er nokkuð dreifð. Enginn kraftur sé í veiðunum en ákveðið hafi verið að gera tilraunir með veiðar í framhaldi af leitinni.
Hjá Hafrannsóknastofnun er verið að vinna að nánari greiningu gagnanna sem safnað var í síðustu viku, meðal annars á aldurssamsetningu loðnunnar. Von er á frekari niðurstöðum öðru hvoru megin við næstu helgi.