Leiðarvísar gefnir út fyrir farþega skemmtiferðaskipa

AECO – Samtök leiðangursskipa á Norðurslóðum, hafa gengist fyrir útgáfu leiðarvísa fyrir farþega og starfsfólk skemmtiferðaskipa. Djúpivogur og Seyðisfjörður eru meðal þeirra byggðarlaga sem leiðarvísar hafa verið gefnir út fyrir.

Seyðisfjörður var fyrsta bæjarfélagið hérlendis til að gefa út slíkan leiðarvísi, árið 2019. „Þessi aukning í komum skemmtiferðaskipa hefur valdið áhyggjum hjá bæjarbúum, þess vegna var svo gott að boða bæjarbúa á fund og vinna þessar leiðbeiningar í sameiningu. Það gekk mjög vel. Leiðarvísirinn hjálpar okkur að fræða gestina sem koma til Seyðisfjarðar,“ er haft eftir Aðalheiði Borgþórsdóttur, þáverandi bæjarstjóra í fréttatilkynningu.

Nýverið komu út leiðarvísar fyrir fimm byggðarlög í viðbót þannig þau eru alls orðin sjö. Djúpivogur er meðal þeirra en leiðarvísirinn byggir meðal annars á vinnustofu sem haldin var með bæjarbúum.

Í leiðarvísunum er að finna upplýsingar um hvað einkenni staðinn, bæði í náttúru og mannlífi, helstu þjónustu í bæjunum, áhugaverða staði, almenningssalerni og kurteisisreglur.

Á Djúpavogi er til dæmis bent á að höfnin sé lífæð staðarins og áhugaverð. Þar þurfi hins vegar að varast vinnutæki og trufla ekki vinnandi fólk.

Á Seyðisfirði er komið inn á að Norðmenn hafi byggt upp bæinn sem verslunarstað og víða séu fallegar gönguleiðir en ekki megi skilja eftir rusl auk þess sem þær geti við vissar aðstæður verið varasamar. Gestir eru hvattir til að taka lagið í Tvísöng en áhöfn skipsins minnt á að lagst sé að bryggju inni í miðjum bænum og þess vegna hvatt til þess að nota hátalarakerfi skipsins sem minnst, einkum árla morguns eða síðla kvölds.

Þá eru gestir í öllum tilfellum áminntir um að virða einkalíf bæjarbúa, einkum barna, til dæmis að fara ekki inn í hús þótt þau séu falleg og jafnvel ólæst. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.