Leit að loðnu í janúar hafin

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson fór frá Hafnarfirði í morgun til loðnukönnunar. Fyrsti loðnufarmur ársins kom til Neskaupstaðar í gær.

Gert er ráð fyrir að rannsóknaskipið verði í 1-2 vikur á miðunum. Fyrir liggur að kanna göngu og dreifingu loðnunnar fyrir norðan og austan land, að því er fram kemur í tilkynningu Hafrannsóknastofnunar.

Út frá þeim niðurstöðum verður endanlegur loðnukvóti gefinn út. Vonast hefur verið til að meira finnist af loðnu en kom í ljós við rannsóknir í haust og um mánaðamótin nóvember/desember en í seinni leiðangrinum voru vísbendingar um talsvert magn loðnu undir ís.

Fyrsti loðnuafli ársins kom til Norðfjarðar í gær. Grænlenska skipið Polar Ammassak kom þá með um 2.000 tonn. Aflinn fékk í sex holum um 80 mílur norðaustur af Langanesi, þar af 600 tonn í síðasta holinu. Fram kemur á vef Síldarvinnslunnar að aflinn verði unninn í mjöl og lýsi.

Skipið er ekki ókunnugt Neskaupstað því það hét Beitir NK-123 fram til ársins 2015. Það er í dag í eigu Polar Pelagic, sem einnig gerir út skipið Polar Amaroq. Síldarvinnslan á þriðjung í útgerðinni.

Austfirsku uppsjávarskipin eru annars flest á kolmunnaveiðum við Færeyjar. Á þeim slóðum eru meðal annars Venus, Aðalsteinn Jónsson, Guðrún Þorkelsdóttir, Barði og Börkur en Beitir kom til Seyðisfjarðar til löndunar upp úr miðnætti.

Hjá Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði var í byrjun vikunnar tekið á móti nýjasta skipi Færeyja, Christian í Grjótinum sem kom með um 3.000 tonn af kolmunna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.