Skip to main content

Leit að loðnu í janúar hafin

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. jan 2023 11:55Uppfært 11. jan 2023 11:57

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson fór frá Hafnarfirði í morgun til loðnukönnunar. Fyrsti loðnufarmur ársins kom til Neskaupstaðar í gær.


Gert er ráð fyrir að rannsóknaskipið verði í 1-2 vikur á miðunum. Fyrir liggur að kanna göngu og dreifingu loðnunnar fyrir norðan og austan land, að því er fram kemur í tilkynningu Hafrannsóknastofnunar.

Út frá þeim niðurstöðum verður endanlegur loðnukvóti gefinn út. Vonast hefur verið til að meira finnist af loðnu en kom í ljós við rannsóknir í haust og um mánaðamótin nóvember/desember en í seinni leiðangrinum voru vísbendingar um talsvert magn loðnu undir ís.

Fyrsti loðnuafli ársins kom til Norðfjarðar í gær. Grænlenska skipið Polar Ammassak kom þá með um 2.000 tonn. Aflinn fékk í sex holum um 80 mílur norðaustur af Langanesi, þar af 600 tonn í síðasta holinu. Fram kemur á vef Síldarvinnslunnar að aflinn verði unninn í mjöl og lýsi.

Skipið er ekki ókunnugt Neskaupstað því það hét Beitir NK-123 fram til ársins 2015. Það er í dag í eigu Polar Pelagic, sem einnig gerir út skipið Polar Amaroq. Síldarvinnslan á þriðjung í útgerðinni.

Austfirsku uppsjávarskipin eru annars flest á kolmunnaveiðum við Færeyjar. Á þeim slóðum eru meðal annars Venus, Aðalsteinn Jónsson, Guðrún Þorkelsdóttir, Barði og Börkur en Beitir kom til Seyðisfjarðar til löndunar upp úr miðnætti.

Hjá Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði var í byrjun vikunnar tekið á móti nýjasta skipi Færeyja, Christian í Grjótinum sem kom með um 3.000 tonn af kolmunna.