Leita leiða til að tryggja mönnun sérhæfðs starfsfólks hjá HSA
Skipaður hefur verið sérstakur starfshópur sem ætlað er að finna leiðir til að tryggja nauðsynlega mönnun sérhæfðs starfsfólks sjúkrahúsa á Austurlandi og Vestfjörðum.
Það er heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, sem komið hefur starfshópnum á fót undir heitinu öflug sjúkraþjónusta í dreifbýli en hópurinn, sem samanstendur af embættismönnum og sveitarstjórnarfólki, skal eingöngu líta til úrræða fyrir heilbrigðisumdæmin í fjörðum fyrir vestan og hér austanlands. Það helgast af því hve langt getur verið í bjargir í þessum tveimur landshlutum.
Þekkt er að fyrir kemur hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) að skerða þarf þjónustu eða jafnvel loka deildum tímabundið sökum manneklu sérfræðinga og það sama hefur verið uppi á teningnum á Vestfjörðum. Óvenju mikið bar á kvörtunum vegna takmarkaðrar þjónustu á fæðingardeild í Neskaupstað síðastliðið sumar sem kostaði að fólk þurfti til Akureyrar eða Reykjavíkur.
Fram kemur í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu að til verksins skuli nýtt fjármagn sem þegar sé til staðar hjá þeim stofnunum sem að koma en þurfi aukið fjármagn vegna tillagna hópsins skuli leitað styrkja gegnum Byggðaáætlun eða leita annarra slíkra leiða.