Lenging löndunarbryggju á Vopnafirði kostar tæpar 800 milljónir
Hreppsráð Vopnafjarðar hefur samþykkt að auka fjárfestingu sveitarfélagsins úr 100 milljónum árlega næstu þrjú árin í 129 milljónir vegna lengingar á löndunarbryggju sem nauðsynlegt þykir að fara í.
Núverandi löndunarbryggja er of stutt til að geta sinnt skipum þegar vertíð stendur yfir og uppskipun og útskipun fer fram á sama tíma og hefur þetta sett stein í götu útgerðarfyrirtækisins Brims sem vill auka talsvert við starfsemi sína í Vopnafirði og byggja þar nýja og stærri uppsjávarvinnslu.
Nú hefur Vegagerðin áætlað að lenging löndunarbryggjunnar kosti í heildina 778 milljónir króna en stærsti hluti þess fjármagns fæst úr Hafnabótasjóði sem Vegagerðin sjálf hefur umsjón með. Það sem eftir stendur, 311 milljónir, falla á Vopnafjarðarhrepp en þær greiðslur munu dreifast á næstu þremur árum.
Vinnsluhús Brims eru fyrirferðamikil við höfnina í Vopnafirði en þar vill fyrirtækið þó bæta við og til þess þarf lengri löndunarbryggju. Mynd Brim.