Lífeyrisréttindi lægri eftir yfirlýsingu ráðherra
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 06. des 2022 17:30 • Uppfært 06. des 2022 17:31
Eignasafn Stapa lífeyrissjóð lækkaði um 4,5 milljarða króna eftir að fjármála- og efnahagsráðherra sagði að til greina kæmi að setja ÍL-sjóð í slitameðferð. Slíkt hefur neikvæð áhrif á réttindi sjóðfélaga sjóðsins, sér í lagi þeirra sem nú eru að hefja töku lífeyris. Framkvæmdastjóri Stapa telur eindæmi að ríkið ætli að bjarga sér frá samningum með afturvirkri lagasetningu. Slíkt geti haft alvarlegar afleiðingar.
Vandinn hverfist um skuldabréf sem Íbúðalánasjóður gaf út fyrir um 20 árum með föstum vöxtum. Þau voru gefin út í alþjóðlegu umhverfi og í skilmálum sögð óuppgreiðanleg. Sjóðurinn lánaði féð áfram til húsnæðiskaupenda, án takmörkunar á uppgreiðslu. Þeir greiddu sín lán upp þegar betri vextir buðust sem varð til þess að gat varð til hjá gamla Íbúðalánasjóði, nú ÍL-sjóði.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, kynnti skýrslu um stöðuna í lok október. Þar sagði hann þrennt koma til greina: Að skuldabyrðin færðist yfir á komandi kynslóðir, samið yrði við eigendur bréfanna sem að mestu eru innlendir lífeyrissjóðir eða slíta ÍL-sjóði með lagasetningu.
„Frá því að bréfin voru gefin út hefur vaxtastig í landinu almennt lækkað sem þýðir að virði bréfanna hefur aukist hjá fjárfestum sem keyptu þau. Að sama skapi hækkaði markaðsvirði skulda Íbúðalánasjóðs. Í núverandi vaxtaumhverfi bera bréfin nokkuð háa vexti til langs tíma sem er verðmætt fyrir langtímafjárfesta á borð við lífeyrissjóði.
Ráðherra hefur talað fyrir því að skuldabréfin verði gjaldfelld með lagasetningu þannig að ríkið sleppi við að þurfa að borga af skuldabréfunum til lokagjalddaga þeirra. Þegar hann varpar þeirri hugmynd fram lækkar virði bréfanna í Kauphöll niður í svokallað par, sem þýðir að þau eru ekki lengur á yfirverði. Þetta eru þrír flokkar, einn með gjalddaga 2024, annar 2034 og sá síðasti 2044. Lækkunin á bréfunum nam 1-16%, eftir lengd.
Okkar kerfi er þannig að réttindasjóðurinn breytist í takt við markaðsvirði eigna sem er reiknað mánaðarlega. Þessar breytingar hafa ekki áhrif á þá sem hafa hafið töku lífeyris heldur snerta þá sem hefja töku lífeyris á meðan þessi staða er uppi,“ útskýrir Jóhann Steinar Jóhannsson, framkvæmdastjóri Stapa.
Eignirnar minnkuðu um 4,5 milljarða
Stapi, sem varð til við sameiningu Lífeyrissjóðs Austurlands og Lífeyrissjóðs Norðurlands, er fyrstur lífeyrissjóða til að reikna áhrifin beint út í lífeyrisréttindi meðan flestir aðrir taka slíkar ákvarðanir á ársfundum. „Þetta fyrirkomulag hefur þann kost að hækkanir koma strax fram, við höfum verið með yfir 10% ávöxtun á ári undanfarin þrjú ár sem við höfum getað skilað strax til sjóðfélaga.“
Jóhann segir að breyting á eignavísitölusjóðsins, sem réttindaútreikningurinn tekur mið af, hafi verið lítil í október, hækkun upp á 0,5%. Hún hefði hins vegar hækkað um 1,8% annars ef ekki hefði komið til lækkun íbúðabréfa í kjölfar framlagningu hugmynda fjármálaráðherra. Eignir sjóðsins lækkuðu alls um 1,3% eða 4,5 milljarða króna vegna málsins.
Ríkið reynir að breyta reglunum sér í hag
Jóhann er afar ósáttur við ráðherrann sem hann segir reyna að breyta leikreglunum eftir á sér í hag. Alvarlegt sé ef ríkið ætli ekki að standa við gerða samninga. Á vef Stapa er aðgengilegt lögfræðiálit sem unnið hefur verið fyrir nokkra lífeyrissjóða þar sem lagaleg staða þeirra er talin sterk. Fjármálaráðherra hefur skipað sérstakan milligöngumann til að koma á samtali milli sjóðanna og ráðuneytisins um lausnir.
„Tapið verður vegna óvissu sem ráðherra skapar með yfirlýsingu sinni. Ef til vill var það markmið hans að rýra virði þessara bréfa. Það var öllum ljóst hvernig ábyrgðinni á þessum bréfum væri háttað þar til ráðherra fór að viðra hugmyndir sínar. Það eru alfarið fjárhagslegar ástæður fyrir þessu upphlaupi, ríkið væri ekki að velta þessu fyrir sér ef vaxtastigið væri því í hag.
Ég á bágt með að trúa að hann láti verða af hótunum sínum um að setja ÍL-sjóð í slitameðferð. Það eru engin fordæmi um að slíkt sé gert við ríkisstofnun, hvorki hérlendis né erlendis. Í skilmálum bréfanna er skýrt tekið fram að Íbúðalánasjóður sé ríkisstofnun og geti þar af leiðandi ekki farið í þrot.
Ef reglunum er breytt eftir á hag, ríkinu í hag, þá þarf bæði almenningur og aðrir að endurhugsa hvernig þeir nálgist ríkið. ÍL-sjóður er stærsti einstaki útgefandi skuldabréfa hérlendis og því er það mjög alvarlegt að ráðherra fari fram með þessum hætti. Enginn annar skuldari er með skuldabréfin sín í annarri hendi og reglubókina í hinni. Ég trúi varla að ráðherra sé alvara, hvað þá að þingið sætti sig við svona framgöngu.“
Pólitískur vandi færður yfir á lífeyrisþega
Jóhann Steinar hafnar því líka að um sanngirnisaðgerð, á þann hátt að vanda almennings sé velt á fáa, sé að ræða. „Eigendur skuldabréfanna eru málaðir upp eins og „vondir“ erlendir kröfuhafar en þetta er bara lífeyrissparnaður fólksins í landinu, sem mér finnst mega sýna honum meiri virðingu en gert er. Þarna er verið að færa pólitískan vanda skattgreiðenda yfir á tiltekinn hóp, það er eigendur lífeyrissparnaðar. Það er líka ákveðnum hópi þeirra hlíft því þetta kemur ekki niður á lífeyrisréttindi hjá sjóðum sem hafa baktryggingu ríkis eða sveitarfélaga.“
Talað hefur verið um að ÍL-sjóður tapi einum og hálfum milljarði króna á dag. Jóhann Steinar svarar því til að ríkið eigi enn möguleika á að auka virði eigna sem í honum sé. „Sjóðurinn á eignir til ársins 2033 til að greiða af skuldabréfinu. Því er ekkert útséð um endanlega skuldastöðu. Kannski gæti ríkið gert betur í að ávaxta eignir sjóðsins þangað til en það hefur gert til þessa. Því er staða ríkisins líka háð óvissu um framtíðina sem nú er reynt að halda fram eins og einhverri staðreynd.“
Jóhann segir lífeyrissjóðina tilbúna í málaferli til að verja hagsmuni sjóðfélaga ef reynt verður að komast hjá greiðslum af skuldabréfunum með að slíta ÍL-sjóði. „Að mínu viti byggja þessar hugmyndir á veikum lögfræðilegum grundvelli og ég tel líklegt að ef ríkið gerir alvöru úr hótun sinni um slitameðferð þá mun reyna á það fyrir dómstólum. Í mínum huga er augljóst að svona aðgerð er eignarnám sem þarf að bæta að fullu samkvæmt eignarréttarákvæðum stjórnarskrár. Þess utan gildir það grunnatriði að samningar skuli standa.“