Litmyndir frá fyrstu forsetaheimsókninni til Norðfjarðar

Litmyndir frá fyrstu heimsókn forseta lýðveldisins Íslands til Norðfjarðar verða meðal ræma úr safni Kvikmyndasafns Íslands sem sýndar verða í Safnahúsinu í Neskaupstað í dag.

„Við erum með afskaplega flottar myndir sem búið er að skanna inn hjá safninu í miklum gæðum. Við verðum þarna með myndir sem annað hvort hafa ekki sést áður eða áratugir eru síðan sáust á Íslandi,“ segir Björn Þór Björnsson, starfsmaður Kvikmyndasafnsins sem stýrir sýningunni í dag.

Hjá safninu hefur að undanförnu verið unnið að því að koma myndum úr safni Kjartans Ó. Bjarnasonar og Vigfúsar Sigurgeirssonar á stafrænt form.

Sýningin er tvískipt þar sem fyrri hlutinn verður helgaður efni frá Norðfirði og víðar af Austfjörðum. „Við erum þarna meðal annars með myndir frá heimsókn Sveins Björnssonar, forseta Íslands, til Norðfjarðar árið 1944. Þær eru í lit og eru þar með vafalaust elstu litmyndir á kvikmyndaformi úr Neskaupstað. Þetta var líka fyrsta heimsókn forseta Íslands til staðarins. Þetta eru myndir sem teknar voru í henni en síðan aldrei sýndar,“ útskýrir Björn Þór.

Auk Norðfjarðar sjást meðal annars myndir frá Reyðarfirði og Seyðisfirði. Þótt flestar myndirnar séu frá miðri síðustu öld, 1944-1954, er þar einnig bútur frá Eskifirði tekinn árið 1923.

Í seinni hluta sýningarinnar verður sýnt efni sem safnið hefur klippt saman frá Kjartani úr ýmsum áttum frá þessum tíma. Má þar sjá hefðbundin sveitastörf en líka óeirðirnar á Austurvelli þegar Ísland gekk í NATO árið 1949.

Sýningin byrjar klukkan 17:00 í Safnahúsinu í Neskaupstað og er haldin í samvinnu við Mynda- og skjalasafn Norðfjarðar og SÚN.

Mynd: Kvikmyndasafn Íslands


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.