Lítur stoltur og ánægður um öxl
Jón Björn Hákonarsons, fráfarandi bæjarstjóri Fjarðabyggðar, fer frá borði stoltur og ánægður eftir allan þann tíma sem hann hefur unnið fyrir Fjarðabyggð og Neskaupstað þar áður.
Fyrr í dag tilkynnti Jón Björn að óvörum um ósk sína að hverfa úr stóli bæjarstjóra og ætlar sér sömuleiðis að taka sér leyfi frá störfum í bæjarstjórn út þetta ár hið minnsta. Sveitarfélagið hefur þegar hafið leit að nýjum bæjarstjóra sem kynntur verður innan skamms.
Í langri færslu á fésbókarvef sínum segir Jón Björn að starfið síðustu árin hafi verið mjög annasamt og jafnframt mjög gefandi en hann hefur með einum eða öðrum hætti verið viðloðinn sveitarstjórnarmál á Austfjörðum síðan árið 1994.
„Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að vinna að fjölbreyttum verkefnum fyrir samfélagið okkar á þesum tíma, hvort sem er innan nefnda sveitarfélagsins, í bæjarstjórn og nú síðast sem bæjarstjóri. Það hafa verið mikil forréttindi að fá að vinna að málum sveitarfélagins með fjölmörgum öflugum og skemmtilegum kjörnum fulltrúum úr hinu pólitíska umhverfi hverju sinni. Það hefur ekki síður verið gefandi að vinna með starfsmönnum sveitarfélagsins. Sveitarfélagið á mikinn auð í sínum starfsmönnum sem hefur verið gott að vinna með í gegnum tíðina.“
Hann segir óumdeilt að sínu mati að sameining kjarna Austfjarða í Fjarðabyggð hafi verið mikið gæfuspor í öllu tilliti. Hann viðurkennir þó líka að sumt hefði mátt gera betur eða öðruvísi þegar litið sé til baka.
„Þegar ég velti fyrir mér öllum þeim málum sem ég hef fengið að koma að þá veit ég eiginlega ekki hvað stendur þar upp úr því þetta hefur eiginlega allt verið jafn gaman að fá að vinna að. Sameiningarnar sem myndað hafa Fjarðabyggð tel ég hafa verið mikið gæfuspor fyrir samfélagið allt. Öll sú mikla tvinnuuppbygging sem hér hefur átt sér stað, sá árangur sem náðst hefur þó í samgöngubótum, velferðarmálin og breytingar á þeim vettvangi í aukinni þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra og almenna velferð í Fjarðabyggð. Allt eru þetta risavaxinn verkerfni en eins og alltaf þegar horft er í baksýnisspegilinn hefði maður viljað gera sumt öðruvísi og annað betur en vonandi er það fleira sem eftir liggur sem hefur reynst samfélaginu til góða eftir afrakstur samvinnu við svo margt gott fólk og íbúa hverfanna okkar.“
Eftir því sem næst verður komist hyggst Jón Björn taka sér gott frí frá störfum, ná áttum og hlaða batteríin.
„Næstu dagar fara í að ganga frá og koma málum sem ég hef verið að vinna í innan sveitarfélagsins í farveg ásamt því að ljúka því sem ljúka þarf. Að því loknu mun ég taka mér góðan tíma til að hlaða batterýin og sinna vinum og fjölskyldu, í framhaldi af því mun ég síðan fara að horfa í kringum mig eftir nýjum verkefnum.“
Jón Björn hefur tekið þátt í sveitarstjórnarstörfum í hartnær 30 ár auk starfa fyrir Framsóknarflokkinn um áratugaskeið. Skjáskot N4