Loðnukvótinn dugir á manneldismarkaðina
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 10. feb 2023 10:13 • Uppfært 10. feb 2023 12:47
Loðnuveiði Íslendinga fer ekki af stað af krafti fyrr en hrognafylling næst í loðnuna. Fulltrúar japanskra kaupenda, sem fylgjast með hrognatökunni, eru þó þegar mættir til landsins.
Þetta kemur fram í samantekt á síðu Síldarvinnslunnar í Austurglugga vikunnar en vika er síðan gefinn var út 57 þúsund tonna viðbótarkvóti sem gerir heildarkvóta vertíðarinnar 276 þúsund tonn. Af þeim falla 182 þúsund tonn í hlut Íslendinga. Færeyingar, Grænlendingar og Norðmenn eiga einnig hlutdeild í heildarkvótanum.
Þótt framför sé að fá loðnu eftir algjöran skort 2019 og 20 þá olli kvóti ársins vonbrigðum eftir að upphafskvóti hafði verið metinn 400.000 tonn. Eftir haustmælingar var hann skorinn niður í 218.000 tonn.
Í samantekt Síldarvinnslunnar kemur fram að fyrirliggjandi kvóti eigi að duga vel til að fylla þá manneldismarkaði sem Íslendingar framleiða á. Áhersla er á að veiða loðnuna þegar hún er verðmætust, það er með hrognum.
Loðna er ekki fryst á Asíumarkað fyrr en 12-13% hrognafyllingu er náð og Japansloðnan þarf að hafa náð 15% hrognafyllingu. Hrognavinnslan sjálf hefst hins vegar ekki fyrr en hrognin hafa náð tilteknum þroska. Fulltrúar japanskra kaupenda eru þó þegar mættir austur á land.
Eftir brælu framan af vikunni eru veiðar farnar af stað af ný. Norsku skipin eru í hnapp úti fyrir Djúpavogi en sunnar mega þau ekki fara. Íslensku skipin eru úti fyrir Hornafirði. Þau eru komin á nótaveiðar því í Seyðisfjarðardýpi er dregin lína og eru flotvörpuveiðar bannaðar sunnan hennar.
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.