Skip to main content

Lögreglan á Austurlandi hyggst herða eftirlit með utanvegaakstri

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. mar 2023 11:17Uppfært 02. mar 2023 11:19

Lögreglan á Austurlandi hyggst leita aukins samstarfs við hina ýmsu hagsmunaaðila í ár með það að markmiði að stemma stigu við síauknum utanvegaakstri á hálendisvegum.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í stefnuáætlun lögregluyfirvalda hér austanlands fyrir yfirstandandi ár en slík áætlun er lögð fram af hálfu embættisins ár hvert og henni fylgt í hvívetni í störfum lögreglu.

Utanvegaakstur hefur alla tíð verið vandamál og hefur heldur færst í aukanna með síauknum fjölda ferðamanna sem margir annaðhvort þekkja ekki boð og bönn við utanvegaakstri ellegar er alveg sama eins og stundum er útlit fyrir.

Þessu hefur lögregla veitt athygli og vill nánara samstarf við sveitarfélög og stofnanir á borð við Vatnajökulsþjóðgarð, Umhverfisstofnun og Landgræðsluna. Með sameiginlegu átaki slíkra aðila megi gera betur að sporna við vandamálinu og finna lausnir.

Fjöldi einstaklinga bregðast gjarnan við þegar upp kemst um utanvegaakstur á viðkvæmum svæðum eins og á þessari mynd frá Kverkfjallaleið í sumar. Þá héldu félagar úr Austurlandsdeild 4x4 á staðinn til að lagfæra eins og hægt var. Mynd Jón Garðar Helgason