Skip to main content

Loftbrú nýtur vinsælda en afslættir mættu vera hærri

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. mar 2023 10:22Uppfært 10. mar 2023 10:22

Íbúar á landsbyggðinni sem rétt hafa á að nýta sér afsláttarkjör á flugfargjöldum innanlands, svokallaðri Loftbrú, eru almennt ánægðir með framtakið en margir eru á þeirri skoðun að hækka megi afsláttarkjör frá því sem nú er.

Austurbrú með tilstuðlan Byggðastofnunar hefur um skeið mælt og kannað notagildi Loftbrúarinnar hjá þeim sem rétt eiga til að nýta sér úrræðið en það nær til þeirra íbúa á landsbyggðinni sem eru hvað fjærst höfuðborginni og þjónustu sem aðeins fæst þar. Hver íbúi á þeim svæðum nýtur 40% afsláttar af sex flugleggjum árlega.

Megin niðurstöður könnunarinnar eru að ánægjan er almennt meðal fólks og margir hafa nýtt sér úrræðið hvort sem er til að sækja þjónustu suður ellegar heimsækja ættingja og vini. Af rúmlega 1700 svarendum í könnun þessari sögðust 76% þeirra hafa flogið á slíkum kjörum.

Eitt og annað má þó betur fara að mati svarenda. Ýmsir höfðu á orði að afsláttarkjörin mættu vera hærri með tilliti til að flugfargjöld hafa hækkað töluvert undanfarin misseri. Flestum þótti helmingsafsláttur, 50%, vera eðlilegt í stað 40% eins og raunin er og margir sögðu eðlilegt að fólk fengi fleiri flugleggi á afsláttarkjörum en hingað til.

Þó flestum finndist bókunarkerfi Loftbrúar einfalt og þægilegt taldi fólk að laga mætti ýmsa hnökra á kerfinu svo sem varðandi tengiflug og afbókanir og margir sögðu of flókið og tímafrekt að fá endurgreiðslu vegna Loftbrúarleggja.

Einnig þótti athugavert í könnuninni hversu fáir innflytjendur virðast nota eða kannast við hvað Loftbrúin gengur út á en afar fá svör fengust frá þeim hópi fólks.