Lokað fyrir umferð yfir Fagradal
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 19. des 2022 18:16 • Uppfært 19. des 2022 18:54
Enn bætir í éljagang og skafrenning á Austurlandi. Veginum yfir Fagradal var lokað fyrir allri umferð rétt fyrir klukkan sex í kvöld.
Eftir því sem næst verður komist hefur ekki þurft að kalla björgunarsveitir út á dalinn. Þær voru fyrr í dag kallaðar út vegna bíla í vanda á Möðrudalsöræfum og Fjarðarheiði.
Útkallið á öræfin barst um klukkan þrjú í dag. Þær upplýsingar fengust um klukkan sex að björgunarsveitir væru að hjálpa fólki úr að minnsta kosti sex bílum til byggða. Verkefnið á Fjarðarheiðinni var smærra í sniðum og tók því mun skemmri tíma.
Þeir vegir, líkt og leiðin yfir Vatnsskarð, hafa verið lokaðir síðan á þriðja tímanum.
Á öðrum vegum er éljagangur og skafrenningur. Í þéttbýli er víða leiðinlegt að fara um, blint þótt ekki sé endilega byrjað að draga í mikla skafla enn.
Veðurstofan lengdi seinni partinn gula viðvörun fyrir Austfirði fram til miðnættis á morgun. Á morgun er einnig gul viðvörun í gildi fyrir Austurland að Glettingi milli 10-19. Búist er við snjókomu og hvassviðri á þessum tíma. Lögreglan á Austurlandi hvetur fólk til að vera ekki á ferðinni nema þörf beri til meðan veðrið gengur yfir.