Lokahelgi rjúpnaveiða en velflestir komnir með nóg í jólamatinn

„Mögulega hefur verið minna af henni uppi á heiðum en hér í fjörðunum hefur verið mikið af fugli og velflestir hér búnir að ná sér í jólamatinn nú þegar,“ segir Sævar Guðjónsson, ferðaþjónustubóndi og veiðimaður með meiru.

Nú líður senn að lokum rjúpnaveiðitímabilsins þetta árið en skotveiðimenn hafa fram á sunnudagskvöld áður en bann tekur gildi.

Veiðimenn norðaustanlands voru fyrir tímabilið sérstaklega beðnir að veiða mjög hóflega með tilliti til að samkvæmt mælingum hefur rjúpnastofninn á því svæði ekki mælst minni um 30 ára skeið eða síðan formlegar talningar hófust.

Sævar hefur ekki orðið var við að rjúpurnar séu færri í fjörðunum nú en síðustu ár og áratugi og ekki heyrt annað en veiði annars staðar í fjórðungnum hafi gengið vel og töluvert mikið sé af fugli.

„Ég er nú ekki alveg viss um þessar mælingar þeirra ef ég á að segja eins og er. Ég hef heyrt í mörgum veiðimönnunum hér og þar og allir eru sammála um að veiðar gangi vel og nóg sé að fugli. Tíðin hefur reyndar ekki verið sérstök hér fyrir austan með allar þessar rigningar og þoku í og með en þá daga sem bjart var og gott gengu veiðarnar vel. Mögulega er einhverjir blettir hér og þar sem lítið er af fugli en engir sem ég þekki hafa kvartað yfir skorti á þessari vertíð.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.