Lokahnykkurinn á ofanflóðavörnum í Neskaupstað

Framkvæmdir við síðasta hluta ofanflóðavarnargarða fyrir ofan byggðina í Neskaupstað munu hefjast á næstu misserum en sá lokahnykkur er verulega umfangsmikill.

Þetta kom fram á sérstökum íbúafundi vegna málsins í Neskaupstað fyrr í vikunni en lokahnykkur þessu tekur til svæðanna fyrir neðan Nes- og Bakkagil sem er tvöfalt stærra svæði en varnargarðasvæðið undir Urðarbotnum sem lokið var við á síðasta ári. Að framkvæmdum loknum munu alls fjórir miklir garðar þvera byggðina alla og fyrir ofan garðana tvöfaldar keiluraðir í þokkabót. Nýi þvergarðurinn verður aðeins í 30 metra fjarlægð frá innstu húsum við botn Hrafnsmýrar.

Þetta kemur vitaskuld til með að hafa áhrif á bæjarbrag meðan á framkvæmdum stendur en framkvæmdasvæðið mun fara yfir tjaldsvæði bæjarins og blakvöll og veg þann er þangað liggur. Sami vegur liggur jafnframt að skógræktarsvæði bæjarbúa en ráðgert að fara þurfi sérstakan vinnuveg að skógræktinni þegar framkvæmdum er lokið. Ekki hefur verið ákveðið hvað hvar nýju tjaldsvæði eða blakvelli verður fundinn staður en ráðgert að þær ákvarðanir liggi fyrir áður en verkið hefst.

Fram kemur í tilkynningu Fjarðabyggðar vegna þessa að fyrir utan jákvæð áhrif á öryggi íbúa geti garðarnir beinlínis orðið aðdráttarafl fyrir bæjarbúa og gesti. Þar litið til þeirra útivistarsvæða sem opna skal þegar framkvæmdum lýkur en mikið stígakerfi með lýsingu og áningarstöðum mun liggja hist og her um og á milli garðanna. Þannig verði til „manngert útivistarsvæði í skjóli tröllslegra mannvirkja.“ Framkvæmdirnar munu því tengja byggðina við bæði náttúruna í hlíðunum sem og Fólkvanginn austan megin við bæinn og skapa „jákvætt innslag í útivist og lýðheilsu bæjarbúa.“

Ekki fengust upplýsingar um hvenær áætlað er að hefja byggingu þessa síðasta varnargarðs, hversu lengi framkvæmdir gætu staðið né hver áætlaður kostnaður sé.

Ofangreind teikning sýnir hvernig síðasti garðurinn skal líta út en svæðið er mun stærra en fyrri svæði sem varin hafa verið í Neskaupstað.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.