LungA-skólinn hefur kennslu á nýrri námsbraut

LungA-lýðháskólinn á Seyðisfirði hefur í næstu viku kennslu á nýrri námsbraut. Hún verður helguð landsins gæðum en til þessa hefur skólinn sérhæft sig á listasviðinu. Fjöldi nemenda og kennara tvöfaldast við nýju námsbrautina.

„Við gerum tilraun með þessa nýju námsbraut nú í janúar en ætlum okkur að kenna hana af fullum krafti frá og með næsta hausti,“ segir Lasse Høgenhof, einn stjórnenda skólans.

„Við höfum verið listaskóli og verðum það áfram en við ætlum líka að vera tilraunaskóli. Nýja námsbrautin fjallar um landið, hvernig við tengjumst jörðinni sem við byggjum afkomu okkar á. Þar munum við fjalla um viðfangsefni eins og vistfræði, landbúnað, félagsfræði og loftlagsbreytingar.

Til að vera samtímaskóli þurfum við að geta tekist á við vandamál samtímans. Námsbrautin er okkar framlag til þess. Við höfum líka áhuga á að sjá hvernig samtalið þróast milli þessara tveggja námshópa. Enn er ýmsu ósvarað um hvernig námsbrautin verði eða hvernig hún þróast en við teljum þetta mikilvægt viðfangsefni,“ útskýrir Lasse.

Skólinn þarf meira húsnæði

Nemendur skólans á nýafstaðinni haustönn voru á þriðja tug talsins. Með nýjum námsbrautinni verða þeir um 50 þegar skólinn verður fullsetinn. Því þarf að skoða húsnæðismál skólans.

„Þessi fjöldi þýðir að við þurfum ný vinnurými og heimavist. Skriðuföllin hafa breytt því hvar við getum verið og þrengt að nýtingarmöguleikum bygginga sem við höfum nýtt okkur til þessa.

Hver nemendahópur er hjá okkur í eina önn eða tólf vikur sem þýðir að skólinn starfar frá lokum september fram í byrjun apríl. Við nýtum farfuglaheimili sem heimavist. Eigið húsnæði gæti gert okkur kleift að lengja þennan tíma og bjóða upp á enn fleiri námsleiðir.“

Gátu haldið sínu striki í Covid

LungA-skólinn hélt í desember sýna fyrstu stóru almennu sýningu að loknum Covid-takmörkunum. „Heimurinn var lokaður í tvö ár fyrir utan skólann okkar. Við gátum haldið fullri kennslu því við gátum lokað okkur alveg af. Við þurftum hins vegar að breyta ýmsu og gæta að hreinlætinu.“

Skólinn fagnar í ár 10 ára afmæli sínu. Ungmenni frá ýmsum löndum hafa frá upphafi sótt skólann. „Við höfum að jafnaði verið með 8-10 þjóðerni í hvert sinn. Danir hafa verið fjölmennastir og voru óvenjumargir í haust en við vorum þá líka með Frakka, Ástrali, Bandaríkjamenn, Englendinga, Þjóðverja og svo koma alltaf einhverjir Íslendingar.“

Frá sýningu LungA-skólans í desember.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.