Skip to main content

Máli Vestmannaeyjar lokið með sekt

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 01. jún 2022 10:44Uppfært 01. jún 2022 10:44

Skipstjóri Vestmannaeyjar, skips dótturfélags Síldarvinnslunnar, hefur verið dæmdur til að greiða 700.000 króna sekt þar sem skipið veiddi innan lokaðs svæðis síðasta haust.


Skipið var á veiðum innan Skápsins, svæði sem lokað var með reglugerðarbreytingu, dagana 6. og 7. september í fyrra. Skipið byrjaði að veiða upp úr klukkan tíu að kvöldi mánudags en hífði trollið um borð skömmu fyrir hádegi samkvæmt gögnum úr fjareftirlitskerfi Landhelgisgæslunnar.

Skipið tók trollið inn að kröfu gæslunnar en þyrla hennar kom á vettvang nokkrum mínútum fyrr. Aflinn var tæp 37 tonn.

Fram kemur í dómi Héraðsdóms Austurlands að skipstjórinn hafi viðurkennt brot sitt greiðlega. Dómurinn telur vanþekkingu hans á gildistöku reglugerðarinnar ekki afsakanlega en lokunin var auglýst í Stjórnartíðindum þann 24. júní í fyrra.

Var hæfileg refsing talin 700.000 króna sekt sem rennur í Landhelgissjóð.

Mynd: Síldarvinnslan/Smári Geirsson