Skip to main content

Margir gerðu sér ferð til Breiðdalsvíkur til að sjá rostunginn Þór

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 08. mar 2023 09:24Uppfært 08. mar 2023 11:19

Rostungurinn sem heimsótti Breiðdalsvík reyndist vera heimsfrægur og er kallaður Þór. Elís Pétur Elísson, íbúi á Breiðdalsvík, segir hafa verið stanslausan straum af fólki til Breiðdalsvíkur á meðan rostungurinn hélt til á bryggjunni. „Það kom haugur af fólki í bæinn bæði ferðamenn og Íslendingar.”

Þór hafði haldið mikið til í Bretlandseyjum áður en hann synti alla leið til Íslands. Þór er talinn vera á milli þriggja og fimm ára gamall og er þrír metrar á lengd. Hann var líklega að hvíla sig á flotbryggjunni eftir langt ferðalag. Lögreglan bað fólk að fara ekki nær rostungnum en 20 metra til þess að valda honum ekki óþarfa stressi.

Elís segir fólk hafa umgengist hann af virðingu. „Flestir virtu fjarlægðar takmörk en það var lokað út á bryggjuna.”

Þór yfirgaf flotbryggjuna um nóttina og hefur ekkert sést síðan. Elís Pétur hefur fengið mikið af símtölum frá breskum og bandarískum fréttamiðlum eftir að kom í ljós að rostungurinn væri frægur.

Mynd: Elís Pétur Elísson