Marka nýtt upphaf Vasks með jólamarkaði á laugardaginn
„Sút og sorg kemur engum úr sporunum þannig að við höfum horft fram á veginn allar götur frá því að eldsvoðinn varð og nú sést til lands á ný,“ segir Guðjón Sigmundsson, sem ásamt fjölskyldu sinni, hefur rekið verslunina og þvottahúsið Vask á Egilsstöðum um langa hríð en allt gjöreyðilagðist það í miklum eldsvoða í lok september.
Nú hyllir undir nýja byrjun hjá Guðjóni og fjölskyldu en ekki aðeins hefur verið aftur verið sett upp vefverslun í nafni fyrirtækisins heldur og opnar verslunin sjálf á nýjum stað eina dagsstund að Sólvangi 5 á Egilsstöðum á laugardaginn kemur.
„Þá ætlum við að hafa svona nokkurs konar jóla- og lagermarkað. Við höfum verið að viða að okkur töluvert af flottum nýjum vörum og ætlum að taka vel á móti fólki enda varð okkur ljóst eftir eldsvoðann að við eigum miklu fleiri bakhjarla hér en við gerðum okkur grein fyrir. Við vonum að við sjáum sem flesta og ég hef verið settur í að búa til kakó og bjóða gestum. Eftir að hafa verið kokkur á Hólmatindi fyrir margt löngu þá lærði ég hvernig á ekki að gera kakó þannig að ég tel mig vita hvað ég sé að gera að þessu sinni.“
Guðjón segir að allur lager og vélar hafi eyðilagst í eldsvoðanum og enginn lager verið geymdur annars staðar. „Það var hins vegar svo að á þessum tíma voru að koma vörur til okkar með Norrænu auk þess sem við áttum útistandandi pantanir hér og þér. Þær settum við á bið og það er að hluta til þær vörur sem við erum nú að fylla nýja verslun af og það úrval er mjög gott. Allar rekstrarvörur eru einnig komnar. En við höfum einnig víða farið að verða okkur úti um fleiri vörur og auðvitað hillur og innbú sem til þarf svo þetta verði skemmtileg aðkoma.“
Aðspurður um hvenær fólk megi eiga von á að fullri opnun verslunarinnar á nýjan leik segir Guðjón nokkurn veg í það að svo stöddu. Töluvert vanti enn upp á að það verði hægt en hann vill ekki nefna dagsetningar. „Það vantar enn tilfinnanlega góðar innréttingar í nýja verslun og annað smálegt enda viljum við vanda til verka þannig að fólki líði vel sem komi til okkar. Okkur langar ekki til að hrúga einhverju upp í flýti heldur fara okkur hægt og gera allt af alúð.“
Eigendur og starfsfólk Vasks voru í óða önn að undirbúa jólamarkaðinn á laugardaginn kemur en ekki skorti vörurnar sem komnar eru í hús. Mynd AE