ME stofnun ársins annað árið í röð
Annað árið í röð hefur Menntaskólinn á Egilsstöðum hlotið nafnbótina Stofnun ársins en það voru yfir 16 þúsund félagsmenn Sameykis sem tóku þátt í valinu að þessu sinni.
Í könnun Sameykis, sem er samstarfsverkefni Sameykis, fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Reykjavíkurborgar auk fjölda stofnanna, er álits leitað meðal þátttakenda á níu mismunandi þáttum í starfsumhverfi fólks hjá hinum ýmsu stofnunum, sveitarfélögum og fyrirtækjum í almannaþjónustu. Þar á meðal sjálfstæði fólks og vinnuskilyrði í starfi, ímynd stofnunar út á við, ánægja starfsfólks og um jafnréttismál. Hugmyndin að hvetja stofnanir til að auka umræðu um aðbúnað og líðan síns starfsfólks.
Menntaskólinn á Egilsstöðum hlýtur þessa vegsemd bæði í aðalflokki og í hópi meðalstórra stofnanna og einkunnir skólans eru betri en fyrir ári þegar skólinn hlaut sömu verðlaun. Heildareinkunn nú var 4,57 af fimm mögulegum en náði 4,52 fyrir ári síðan.
Aðrir austfirskir aðilar sem komast á blað með góða einkunn eru meðal annars Verkmenntaskóli Austurlands með einkunnina 4,39, Skógræktin með einkunnina 4,35 og þá nær Lögreglan á Austurlandi einkunninni 4.05.
Árni Ólason, skólameistari, er þakklátur fyrir heiðurinn en segir margt koma saman til að skapa gott andrúmsloft innan veggja skólans. „Það mjög ánægjulegt að fá þetta aftur og jákvætt að við erum enn að bæta okkur enda skiptir miklu fyrir nemendurna sjálfa að starfsfólk sé sátt og ánægt.“
Skólameistari ME með nýja verðlaunagripinn fyrir skömmu. Mynd ME.