Mesta fannfergi á Reyðarfirði í áratugi

„Auðvitað var svona mikill snjór ósköp algengt og eðlilegt hér fyrir margt löngu en ég skal viðurkenna að það eru æði mörg ár síðan ég sá svona mikinn snjó í bænum,“ segir Guttormur Örn Stefánsson, snjómoksturmaður á Reyðarfirði.

Þar, eins og víðast hvar annars staðar í fjórðungnum eru snjóalög með allra mesta móti og svo mjög að íbúagötur víða í bæjarkjörnum hafa meira eða minna verið lokaðar í tvo til þrjá sólarhringa eftir atvikum. Reyðarfjörður þar engin undantekning.

Guttormur, sem hefur áratugareynslu af snjómokstri á Reyðarfirði og víðar á Austurlandi, var ásamt fleirum að opna götur eins og hægt var eftir hádegi í dag en ýmis þjónusta sem íbúar eru vanir á borð við sorphirðu hefur þurft að bíða því bílar hafa komist illa eða jafnvel alls ekki inn í margar götur í mörgum kjörnum hér austanlands síðustu dægrin.

„Ég held ég geti sagt að það er fyrst nú sem okkur er að takast að opna nánast alla vegi í bæjarfélaginu en auðvitað fleiri en ég að störfum. Það kannski segir sitt að snjóruðningar nánast í hverri götu ná tveggja til þriggja metra hæð og ekkert auðvelt við að hreinsa göturnar af svo miklum snjó. En okkur er að takast þetta sýnist mér að sinni. Svo verður bara að taka á því ef það bætir mikið meira í eins og spár eru að benda til.“

Guttormur að störfum á vél sinni í miðbæ Reyðarfjarðar í dag. Það er fyrst nú sem velflestar götur í bænum eru færar um nokkurra daga skeið. Mynd AE

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.