„Meiri loðnukvóti betri en minni loðnukvóti“
„Þetta er bara svona og við það þarf að búa en auðvitað er mun betra að fá hækkun en lækkun þó svo menn hafi kannski einhverjir verið að gæla við meiri hækkun en hér er gefin“ segir Páll Snorrason, framkvæmdastjóri rekstrar og fjármálasviðs hjá Eskju á Eskifirði.
Í morgun tilkynnti Hafrannsóknarstofnun um tillögur sínar um aukinn loðnukvóta umfram þá ráðgjöf sem gefin var í október síðastliðnum en hækkunin nú tekur mið af mælingum skipa stofnunarinnar auk þriggja loðnuskipa í síðasta mánuði en með hliðsjón af niðurstöðum úr haustmælingunum Alls leggur Hafrannsóknarstofnun til 57.300 tonna hækkun eða 275.705 tonn í heildina.
Eskja, líkt og önnur stærri sjávarútvegsfyrirtæki, byggja töluvert á loðnuveiðum en sjálfur segir Páll að hann fyrir sitt leyti hafi ekki búist við mikilli hækkun eða breytingum frá fyrri ráðgjöf. Eskja mun fá í sinn hlut um 21 þúsund tonn af heimildunum að hans sögn og þar menn nokkuð sáttir.
„Við hér erum búin að leggjast yfir þetta og þetta breytir nú okkar áætlunum ekki mikið. Líkast til getum við byrjað aðeins fyrr á frystingunni fyrir vikið. En á móti kemur þá er spáin næstu dagana ekki vænleg sem hefur áhrif á móti.“