Mikil ánægja íbúa með nýjar leiguíbúðir fyrir eldri borgara á Egilsstöðum

„Húsin sem hér stóðu áður voru barn síns tíma, illa farin og uppfylltu engan veginn þær kröfur sem gerðar eru til íbúða af þessu taginu í dag,“ sagði Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings.

Mikil tilhlökkun var meðal þeirra einstaklinga sem komu saman fyrir utan Lagarás 21 til 39 á Egilsstöðum í morgun þegar sveitarstjórinn afhenti nýjum leigjendum lykla að tíu nýjum íbúðum fyrir 60 ára og eldri. Þær byggðar að tilstuðlan leigufélagsins Ársalir bs. sem er sameignarfélag Múlaþings og Fljótsdalshrepps. Það félag hefur umsjón með rekstri leiguíbúða fyrir eldri en 60 ára og er ekki rekið í hagnaðarskyni.

Mjög var vandað til verka við byggingu nýju íbúðanna að sögn Hreins Halldórssonar, umsjónarmanns Ársala, sem gaf byggingaraðilum toppeinkunn fyrir vönduð vinnubrögð. Meðalstærð þeirra er um 70 fermetrar og allar eru þær með góðar svalir.

„Þarna getur fólkið gengið inn og byrjað að elda í matinn og hefur allt til alls. Það reyndar tefst um tvo, þrjá daga að tengja ljósleiðara inn í íbúðirnar en að öðru leyti hefur allt gengið upp og bæði kostnaðaráætlun og tímaramminn að stærstu leyti gengið eftir. Ég verð ekki var við annað en nýir íbúar séu afar sáttir og ekki er frábært útsýnið að skemma neitt fyrir.“

Nýju húsin standa þar sem áður voru eldri íbúðir við hlið sjúkrahússins á Egilsstöðum en töluverðar umræður voru á sínum tíma um að leyfa þeim húsum að halda sér í stað þess að byggja nýtt eins og raunin varð.

Hreinn segir að þau hafi verið það illa farin að það hefði kostað svipað ef ekki meira að koma þeim til horfs en að byggja bara nýtt.

„Þau hús uppfylltu ekki ýmsa staðla sem krafist er í dag, þar var mikill leki í öllum húsunum, þau ekki músheld og í tilfellum héldu þau varla vindi. Þar hefði þurft að skipta um allt þakið og fjöldi annarra hluta sem hefði þurft að fara í. Nýjar íbúðir eru miklu betri lausn en það hefði verið að mínu mati.“

Hreinn segir eina sem á bjáti sé að íbúðirnar hafi ekki verið fleiri en tíu því allnokkur fjöldi fólks er á biðlista eftir slíkum íbúðum.

Sveitarstjórinn Björn Ingimarsson afhenti lyklavöld að öllum tíu íbúðunum og fór ekki á milli mála að allir voru mjög ánægðir með nýju híbýlin. Einn gekk svo langt að segja íbúðirnar of flottar. Mynd AE

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.