Skip to main content

Mikill fjöldi á stofnfundi Austurlandsdeildar Norræna félagsins

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 09. jún 2022 10:57Uppfært 09. jún 2022 10:59

„Það kom mér mjög á óvart hversu margir komu á fundinn og sýndu þessu áhuga en það var ekki eitt laust sæti í salnum,“ segir Signý Ormarsdóttir, sem haft hefur veg og vanda af því að endurvekja deild innan Norræna félagsins hér á Austurlandi.

Stofnfundur deildarinnar var í gær á Egilsstöðum en þetta er eina slíka deildin á Austurlandi öllu. Slík deild var til staðar fyrir mörgum árum síðan en sú deild lognaðist út af. Gestir komu alls staðar af úr fjórðungnum á stofnfundinn svo óhætt er að tala um Austurlandsdeild að mati Signýjar.

Signý segir að hún sjálf hafi lengi brunnið fyrir sterkara norrænu samstarfi á hinum ýmsu sviðum samfélagsin enda sé leitun að jafn merkilegu fyrirbæri annars staðar í heiminum og mikilli samvinnu og samstarfi norrænu þjóðanna um langa hríð.

„Framundan er að koma deildinni formlega á laggirnar, skipa í nefndir og þetta hefðbunda og við gælum við að halda svo annan góðan fund með áhugasömum þegar líður á árið. Það er nefninlega mikilvægt að fleiri komi að áætlunum og framtíðarsýn en bara stjórnarmenn. Við viljum endilega fá sjónarmið allra og miðað við mætinguna á fundinn er sannarlega áhugi til staðar hér fyrir austan.“

Sjálf segir Signý hugsanleg verkefni geti verið af ýmsum toga en Norræna félagið sjálft hefur margvísleg mismunandi verkefni á sinni könnu sem deildin hér fyrir austan gæti tekið þátt í og notið góðs af. Hver þau verða kemur í ljós þegar fram líða stundir.

Norrænt samstarf og samvinna hefur ekki farið jafn hátt undanfarin ár og áður fyrr en ekki vantaði áhugasama á stofnfund nýrrar deildar hér austanlands. Mynd Norden.