Skip to main content

Miklir kraftar að verkum er vatnslagnir rofnuðu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. jún 2022 15:44Uppfært 10. jún 2022 16:13

Framkvæmdastjóri HEF veitna segir ljóst að mikil kraftar hafi verið að verkum þegar þrýstipípa Fjarðarárvirkjunar nýrri fór í sundur og rauf um leið kaldavatnslög Seyðisfjarðar. Viðgerð miðar vel og er vonast til að vatn komist aftur á um kvöldmat.


Á meðfylgjandi mynd frá HEF veitum má sjá stóra pípu, um metra þvermáli, sem er þrýstipípa Fjarðarárvirkjunar. Hún fer í sundur og rýfur gráa pípu, sem er kaldavatnslögnin. Sú er 300 millimetrar í þvermál og annar vel vatnsnotkun Seyðfirðinga sem er að jafnaði um 150 rúmmetrar á klukkustund.

Á túninu við hliðina má sjá nokkra malar- og steinahrúgu. Þetta efni var áður ofan á pípunum en frussaðist upp í loftið þegar vatnið ryðst upp úr henni.

„Mér finnst þetta mjög merkilegt. Vatnið sprengir sig upp úr holunni. Það hefur verið há vatnssúla þegar þetta mokaðist upp,“ segir Aðalsteinn Þórhallsson, framkvæmdastjóri HEF veitna.

Vatnið sem fór af stað olli framhlaupi í læk sem liggur við Fjarðarárvirkjun. „Þetta hefur verið tilkomumikið í morgun,“ segir Aðalsteinn.

Hann segir vinnu við lagfæringarnar ganga vel. „Þetta gengur þokkalega. Ég vona að það gangi eftir að vatn komist á aftur fyrir kvöldmat eins og við höfum talað um.“

Pípurnar rofnar. Mynd: HEF veitur/ÞBR

Við Fjarðarselsvirkjun í morgun. Mynd: Ómar Bogason

fjardasel vatnsleidsla 20220610 ob web