„Minnihlutinn getur ekki vænst góðs samstarf frá M-listanum“

Þröstur Jónsson, bæjarfulltrúi Miðflokksins, er ósáttur við að ekkert samráð hafi verið við flokkinn þegar aðrir listar í minnihluta sveitarstjórn Múlaþings, Austurlisti og Vinstrihreyfingin – grænt framboð, skiptu með sér fulltrúum í nefndum. Miðflokkurinn fékk engan fasta fulltrúa.

„Þetta eru forkastanleg vinnubrögð og ekki til þess fallin að halda þeim vinnuanda sem verið hefur,“ sagði Þröstur á fyrsta fundi nýrrar sveitarstjórnar.

Þröstur sagði að hin tvö framboðin hefðu myndað blokk og ekkert samráð haft við M-listann, aðeins sent tölvupóst kvöldið fyrir fund með niðurstöðu. Þröstur kvaðst sitja hjá við afgreiðslu nefnda vegna þessa og horfa til þess að halla sér að meirihlutanum á nýhöfnu kjörtímabili því honum líkaði bæði málefnaskráin og fólkið. „Minnihlutinn getur ekki vænst góðs samstarfs frá M-listanum á kjörtímabilinu,“ sagði hann.

Báðust afsökunar

Niðurstaða nefndakosningar varð sú að M-listinn fékk engan fulltrúa í byggðaráð, fjölskylduráð og umhverfis- og framkvæmdaráð. Flokkurinn fékk þar hins vegar áheyrnarfulltrúa. Sama skipting var viðhöfð fyrir tveimur árum og á það minnti Hildur Þórisdóttir, oddviti Austurlista, þegar hún svaraði Þresti.

„Þetta er ekki í fyrsta sinn. Við fengum tvo fulltrúa nú, VG tvo og ákváðum að mynda blokk. VG og Austurlisti eiga málefnalega samlegð. Þetta eru engar nýjar fréttir sem koma neinum á óvart. M-listi fékk einn mann og var ekki í samningsstöðu. Það hefði því engu breytt fyrir ykkar stöðu þótt þið hefðuð komið inn í viðræðurnar,“ sagði hún.

Helgi Hlynur Ásgrímsson, oddviti VG, sagðist skila reiði Þrastar og baðst afsökunar á að hafa ekki rætt málið við hann fyrirfram. „Auðvitað átti ég að hringja í þig og tala um þetta, fyrirgefðu,“ sagði Helgi Hlynur.

Þröstur svaraði að hann kynni að meta auðmýkt Helga Hlyns. Hildur baðst einnig afsökunar þegar hún kom upp öðru sinni á eftir Þresti en benti á að fyrirvarinn hefði verið skammur en talið augljóst að V og L-listar myndu mynda blokk eins og síðast. Helgi Hlynur talaði einnig um að lítið hefði verið til skiptanna í ráðunum þremur. Miðflokkurinn á hins vegar áheyrnarfulltrúa í þeim öllum.

Meirihlutinn bætir við sig heimastjórn

Berglind Harpa Svavarsdóttir, Sjálfstæðisflokki, verður formaður byggðaráðs eins og hún hefur verið síðustu tvö ár. Hennar listi á þar tvo fulltrúa en Framsóknarflokkurinn einn. Austurlisti og VG eiga einn fulltrúa hvort. Í fjölskylduráði verður Sigurður Gunnarsson, Sjálfstæðisflokki formaður. Meirihlutaflokkarnir skipta jafnt með sér tveimur fulltrúum en Austurlisti fær tvo af þremur fulltrúum minnihluta. Í umhverfis- og framkvæmdaráði fær VG tvo fulltrúa en Austurlistinn einn. Skipting meirihlutans er jöfn en Jónína Brynjólfsdóttir, Framsóknarflokki, verður formaður.

Á síðasta kjörtímabili skiptu minni- og meirihluti jafnt með sér formennsku í heimastjórnum. Að þessu sinni verður meirihlutinn í formennsku í þremur. Björg Eyþórsdóttir, Framsóknarflokki, verður formaður á Seyðisfirði, Vilhjálmur Jónsson, Framsókn, á Fljótsdalshéraði og Guðný Lára Guðrúnardóttir, Sjálfstæðisflokki, á Djúpavogi.

Eyþór Stefánsson frá Austurlista verður formaður heimastjórnar Borgarfjarðar. Er hann jafnframt eini heimamaðurinn sem gegnir formennsku í heimastjórn.

Helgi Hlynur sagði það slæmt skref meirihlutans að taka til sín formennskuna í þriðju heimastjórninni. „Þið eruð að gera þetta að flokkspólitísku máli. Gagnrýnin verður harðari en verið hefur.“ Berglind Harpa sagði að skipting heimastjórnanna væri ákvörðun meirihlutans og innan hans hefði verið nýtt, öflugt og áhugasamt fólk.

Við kjör í stjórn HEF veitna lágu fram þrír listar, einn frá meirihluta, annar frá L og V listum og sá þriðji frá Miðflokki. Þröstur kvaðst þar vera að gera líkt og fyrir tveimur árum, bjóða fram fagþekkingu sína til að efla rekstur veitnanna. Hann fékk ekki brautargengi þar. D-listi fékk tvo fulltrúa og Framsókn, VG og Austurlisti sinn fulltrúann hvert. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.