MS fær aukinn frest til hreinsunar á fráveituvatni

Mjólkurstöð MS á Egilsstöðum fær frekari frest til að ljúka uppsetningu á hreinsunarbúnaði vegna fráveituvatns frá stöðinni samkvæmt ákvörðun Heilbrigðisnefndar Austurlands (HAUST.)

Rétt tæpt ár er síðan Austurfrétt fjallaði um að enn skorti á að stöð MS á Egilsstöðum væri með fullnægjandi mengunarbúnað vegna fráveituvatns frá stöðinni en lögum samkvæmt skal hreinsa allt affall eins vel og nokkur kostur er. Upphaflega fékk fyrirtækið frest um mitt ár 2020 til að ljúka lögbundnum úrbótum og skyldi þeim lokið í síðasta lagi í lok árs 2021.

Í mars á síðasta ári bárust þau svör frá MS að tafir hefði orðið á uppsetningu sérstakra véla til að vinna úr mjólkursykri þeim er borist hefur undanfarin ár með fráveituvatni beint í Lagarfljótið. Uppsetningu þeirra átti að vera lokið síðasta haust og þá átti allur mjólkursykur sem til féll á Egilsstöðum að fara með tankbílum á Sauðárkrók þar sem umrædd vélasamstæða átti að rísa.

HAUST hefur fengið þær upplýsingar hjá MS að frekari tafir hafi orðið á afhendingu hreinsunarbúnaðar erlendis frá en nú sé gert ráð fyrir að búnaðurinn komi til landsins og verði starfhæfur í aprílmánuði. Fyrirtækið fær því aukinn frest en HAUST mun taka sýni úr fráveituvatninu þegar uppsetningunni er að fullu lokið.

Í stöð MS á Egilsstöðum er meginhluti framleiðslunnar ostar en við framleiðsluna losna ýmis efni sem óheimilt er að fari út í náttúruna. Ekki er enn búið að ráða bót á því.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.