Múlaþing líka í fræðslusamstarf við Samtökin '78
Sveitarfélagið Múlaþing verður áttunda sveitarfélag landsins til að gera sérstakan fræðslusamning við Samtökin '78 en í Fjarðabyggð var skrifað undir samsvarandi samning fyrir síðustu áramót.
Drög að þriggja ára samningi liggja fyrir í Múlaþingi en í grunninn snýr þetta að stóraukinni fræðslu um kynsegin fólk og málefni þeirra meðal allra sem að einhverju leyti koma að kennslu og þjálfun barna og unglinga auk starfsmanna sveitarfélagsins sjálfs. Þá mun íbúum einnig gefast kostur á fræðslu.
Líkt og gerðist í Fjarðabyggð voru það tilmæli frá ungmennaráði sveitarfélagsins sem kom boltanum af stað en töluvert bakslag hefur komið í baráttu kynsegin fólks á síðustu árum og þar ekki síst í skólum. Helsta baráttutækið gegn slíku er fræðslu- og upplýsingagjöf og hjá Samtökunum '78 er mikil og löng reynsla af slíkri ráðgjöf.