Múlaþing mun ekki samþykkja vindorkuver án stefnumótunar ríkisins

Samþykkt var samhljóða á fundi sveitarstjórnar Múlaþings að sveitarfélagið muni ekki leggja blessun yfir uppbyggingu vindorkuvera fyrr en stefnumótum ríkisvaldsins í þeim málum verður ljós. Unnið hefur verið að slíkri áætlun af hálfu ríkisins um tíma en óljóst hvenær þeirri vinnu lýkur.

Vindorkumál tóku mikinn tíma á sveitarstjórnarfundi sem fram fór í gær en allir þar þó sammála um að án þess að fyrir liggi stefnumörkun ríkisins varðandi nýtingu vindorku komi ekki til greina að Múlaþing samþykki stóra vindorkugarða eða stórfellda nýtingu vindorku innan marka sveitarfélagsins.

Fyrirtækið Zephyr Ísland hefur áform um að byggja stóran vindorkugarð í landi Klaustursels í Jökuldal skammt frá hinum vinsæla ferðamannastað Stuðlagili. Hefur fyrirtækið haldið kynningar vegna þess verkefnis fyrir sveitarstjórnarfólki að undanförnu en það var heimastjórn Fljótsdalshéraðs sem kallaði sérstaklega eftir umræðu um uppbyggingu vindorkuvera í Múlaþingi og hvert sveitarfélagið stefni í þeim málum.

Í máli Jónínu Brynjólfsdóttur, forseta sveitarstjórnar, á fundinum kom meðal annars fram að í lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem gerð undantekning um skattlagningu á rafveitur, flutningslínur og spennuvirkjum og af þeim hafi sveitarfélög landsins litlar sem engar tekjur.

„Í þessari tilkynningu [um stjórnarsáttmála ríkisins] var kveðið á starfshóp sem nú er að störfum sem er að skoða og meta okkar lagalega umhverfi hvað varðar vindorkuna. Hópurinn á að koma með tillögur til ráðuneytisins um hvernig framangreindum markmiðum verði náð og er sá starfshópur í virku og góðu samtali við Samband íslenskra sveitarfélaga sem og samtök orkusveitarfélaga. Ég hef verið svo heppin að fá að koma að þeirri vinnu og tel samtalið við starfshópinn vera gott og vonast eftir því að niðurstöður hópsins leiði til þess að við munum sjá innan skamms breytt umhverfi er varðar uppbyggingu vindorkuvera á Íslandi. En í dag er ekki uppi lagaóvissa um uppsetningu á vindorkuverum og hætt við því að lítið breytist ef sveitarfélögin þrýsti ekki á um breytingar og gerð þessarar stefnumótunar. Við núverandi aðstæður verður ekki unað og er bókun okkar hér í dag sett fram til að undirstrika mikilvægi þess að ríkið klári sem fyrst sína stefnumótun svo sveitarfélögin geti unnið okkar.“

Langar ekkert í efnaverksmiðjur á Austurlandi

Helgi Hlynur Ásgrímsson, VG, tók fullum hálsi undir orð Jónínu á fundinum. „Það er í mínum huga dálítið magnað ef við náum öll að samþykkja þessa bókun sameiginlega því við höfum mjög skiptar skoðanir á þessu máli. Hins vegar erum við sammála um það að eins og staðan er núna þá er ekkert hægt að komast áfram með þetta mál. Mér finnst það gott því ég vil ekki vindorkuver í stórum stíl hér. Ég hef komið inn á það áður að þessi 27% af rafmagni landsins sem framleitt er á Austurlandi er nóg. Ég vil fara að setja eggin í fleiri körfur og ég er ekkert spenntur fyrir efnaverksmiðjum [sem nýta hugsanlega vindorku framtíðarinnar] því við erum með yfirdrifið nóg af frumframleiðslu á Austurlandi. Við þurfum að horfa í aðrar áttir.“

Ríkið virðist aldrei tilbúið

„Það sætir furðu þegar við erum að ræða um svona risastór umhverfismál sem hafa áhrif á nærsamfélagið að ríkið er aldrei tilbúið. Alveg sama hvort við erum að ræða um laxeldi á Seyðisfirði eða vindmyllugarða upp í Jökuldal. Ríkið ekki tilbúið og enn síður við. Ég kalla eftir því að menn girði sig í brók, vinni þessa orkustefnu og greini hver orkuþörfin er því það er gríðarleg upplýsingaóreiða,“ lét Hildur Þórisdóttir, Austurlistanum, hafa eftir sér við umræðuna og Berglind Harpa Svavarsdóttir, Sjálfstæðisflokki, ítrekaði þá skoðun sína að vatnsaflsvirkjanir séu vænlegri kostur en vindorkan. „Varðandi orkuþörf og hvernig við fáum okkar orku þá er það náttúrulega tvennt ólíkt hvort við séum með vindorku eða vatnsafl. Ég get alveg sagt það að ég er mun hrifnari af vatnsaflsvirkjunum heldur en nokkurn tímann vindorku. Því við vitum það varðandi ferðaþjónustuna að hún er gríðarlega mikilvæg fyrir okkur og við viljum passa upp á víðernin okkar og að það sé ekki vindorka út um allt.“

Tekið af skarið með að án þess að stefna stjórnvalda sé ljós verði engir vindorkugarðar settir upp í Múlaþingi. Mynd Landsvirkjun

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.