Skip to main content

Múlaþing þarf hugsanlega að draga úr fjárfestingum og framkvæmdum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 09. feb 2023 10:12Uppfært 09. feb 2023 14:08

Hafin er vinna á því hjá Múlaþingi hvort draga þurfi úr þeim fjárfestingum og framkvæmdum sem gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun sökum forsendubrests.

Þetta kom fram í máli Björns Ingimarssonar, sveitarstjóra Múlaþings, á síðasta fundi sveitarstjórnar en hann sjálfur hefur ekki um langt skeið upplifað jafn mikilar forsendubreytingar og orðið hafa á skömmum tíma. Þar vísar sveitarstjórinn í þróun verðlags og launa upp á síðkastið en verðbólga í landinu hefur sem kunnugt er hækkað drjúgt síðustu mánuði með tilheyrandi áhrifum á flestar vísitölur.

Björn segir að ef yfirstandandi greiningarvinna sýni að viðmið við upphaflega fjárhagsáætlun gangi ekki upp þurfi að haga seglum eftir þeim vindi.

„[...]Eins og hefur komið aðeins fram í umræðum hér þá eru ýmsar forsendur sem fjárhagsáætlun byggir á sem hafa tekið breytingum. Það er verðlagsþróun og launaþróun. Þetta leiðir til þess að óhjákvæmilegt er annað en að taka til skoðunar hvort raunhæft er að ráðast í allar þær fjárfestingar, framkvæmdir eða rekstraráherslur sem gert er ráð fyrir í núgildandi fjárhagsáætlun. Við horfum til ákveðinna viðmiða varðandi framlegð rekstrar og skuldsetningar  og ef við sjáum ekki fram á að við náum þeim markmiðum sem við höfum sett okkur þá munum við verða að bregðast við með ákveðnum hætti.“