Skip to main content

Myndræn skráning búsetuminja í Fljótsdal tilnefnd til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 31. jan 2023 09:50Uppfært 31. jan 2023 09:53

Verkefni um myndræna skráningu búsetuminja í Fljótsdal var meðal þeirra sem tilnefnt var til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands sem afhent voru á Bessastöðum í gær.


Sex verkefni voru tilnefnd til verðlaunanna en verðlaunin eru veitt námsfólki sem unnið hefur framúrskarandi starf við úrlausn verkefna sem styrkt voru af Nýsköpunarsjóði námsmanna á síðasta ári. Verðlaunin hafa verið veitt árlega frá árinu 1996.

Fyrst velur stjórn sjóðsins 10-15 verkefni og síðan eru 4-6 valin sem öndvegisverkefni. Í tilkynningu segir að öndvegisverkefnin eigi það sameiginlegt að vera vel unnin og frumleg en afar ólík innbyrðis og sýna vel fjölbreytnina sem einkenni verkefnin sem sjóðurinn styrki. Fjölbreytnin endurspegli eins frjótt og margbreytilegt starf háskólanema hérlendis og íslensks námsfólks erlendis. Verkefni um vélræna endurhæfingu í heimahúsi með sýndarveruleika fékk aðalverðlaunin.

Snjalltækni og almenningur virkjuð til að skrá minjar

Um verkefnið í Fljótsdal segir að markmið þess hafi verið að afla gagna og ná yfirsýn yfir minjar á stóru svæði á sem stystum tíma með markvissum vinnubrögðum og nýjustu tækni. Nýsköpunin fólst í að prófa tækni sem almenningur hefur aðgengi að til að kanna hvort hægt sé að lýðvæða öflun myndrænna gagna af menningarminja.

Ástæðan er að stærstur hluti minja hérlendis er óskráður þótt sveitarfélög hafi í áratug verið skyldug til að gera lögbundna fornleifaskráningu. Þess vegna skiptir máli að finna leiðir til að flýta fyrir að fá heildarmynd af minjum í landinu, ekki síst á tímum loftslagsbreytinga þar sem nýjar hættur stafa af mörgum minjum.

Við myndatöku og hnitsetningu minjanna í Fljótsdal var notast við dróna, snjallsíma og spjaldtölvu með innbyggðum þrívíddarskanna. Markmiðið var að komast yfir sem flestar jarðir neðan við heiðarbrún og náðist það á 16 jörðum af 34.

Notað var smáforritið Muninn, sem þróað hefur verið í CINE-verkefninu sem Gunnarsstofnun, Minjastofnun Íslands og háskólinn í St. Andrews í Skotlandi standa að. Með því getur fólk hnitsett, myndað og metið minjar og sent gögn beint til Minjastofnunar.

Niðurstöður verkefnisins þykja benda til þess að með einföldum leiðbeiningum og skýrum verkferlum sé hægt að virkja almenning til að afla ítarlegra og mikilvægra upplýsinga um staðsetningu og ástand menningarminja víða um land. Gögnin, sem safnað var, verða hluti af gagnagrunni Minjastofnunar.

Verkefnið var unnið af Sigríði Hlíðkvist G. Kröyer og Kristínu Emblu Guðjónsdóttur, nemum í landfræði við Háskóla Íslands. Leiðbeinendur voru Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri, og Rannveig Þórhallsdóttir, fornleifafræðingur hjá Sagnabrunni og Rannsóknasetrum HÍ.

Kristín Embla og Sigríður við afhendingu verðlaunanna í gær. Mynd: Forsetaembættið/Arnaldur Halldórsson