Nægur snjór í Stafdal en bið eftir að opnað verði í Oddsskarði

„Því miður er næsta snjólítið hjá okkur um þessar mundir og ég held að þurfi ansi góða ofankomu á næstunni til að við getum farið að opna fyrstu lyfturnar,“ segir Sigurjón Egilsson, umsjónarmaður skíðasvæðisins í Oddsskarði.

Töluverður munur er á snjóalögum á þeim tveimur austfirsku skíðasvæðum sem finnast því þegar hefur verið opnað fyrir skíðaiðkun í Stafdal á Fjarðarheiðinni en hugsanlega þarf einhverjar vikur til áður en hægt verður að bjóða fólki að skíða í Oddsskarðinu. Þar er nánast bara föl yfir grundu eins og sést á meðfylgjandi skjáskoti úr vefmyndavél í Oddsskarði.

Sigurjón segir það í raun ekki ýkja óeðlilegt því gegnum tíðina hefur oft ekki verið hægt að opna að ráði fyrr en um eða upp úr miðjum janúarmánuði. Útlit sé fyrir að svo verði aftur nú.

„Þetta er fljótt að breytast. Við vorum að klöngrast hingað upp eftir í snjó vel yfir hné í október og nóvember síðastliðnum en það allt á bak og burt nú. Þetta veltur allt á ofankomu og vindáttum hversu vel fyllist í fjöllin en jákvætt að sjá að búið er að opna í Stafdal.“

Þó opnað hafi verið á skíðasvæðinu í Stafdal er opnunartími enn takmarkaður en upplýsingar um slíkt dag frá degi finnast á vef skíðasvæðisins á Facebook.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.