Skip to main content

Nauðsynlegt að meta náttúruvá á Austurlandi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. feb 2023 11:55Uppfært 07. feb 2023 11:56

Loftslagsbreytingar kalla á allsherjar úttekt á náttúruvá á Austurlandi. Í kjölfarið þarf að forgangsraða aðgerðum til að draga úr afleiðingum náttúruhamfara. Austfirðingar eiga góð tækifæri til að taka forystu í þessum rannsóknum á landsvísu.


Þetta kemur fram í grein Helga Ómars Bragasonar, jarðeðlisfræðings og fyrrum skólameistara Menntaskólans á Egilsstöðum í síðasta tölublaði Austurgluggans en það var tileinkað komandi tímum á Austurlandi.

Helgi Ómar bendir þar á að lítið hafi verið fjallað um náttúruvá vegna minnkandi sífrera hérlendis, en mörk hans færast ofar í fjöll við hækkandi meðalhita sem aftur getur leitt til skriðufalla með tilheyrandi tjóni. Helgi Ómar segir að sífreri uppi á heiðum, svo sem í flóum á Fljótsdals- og Jökuldalsheiðum, þurfi sérstakrar athugunar, meðal annars vegna hugmynda um vindorkuver.

Þá bendir Helgi Ómar einnig á að brattar fjallshlíðar á Austurlandi séu þaktar skriðum með grjótmulningi sem skríði mishratt niður. Áköf rigning getur raskað jafnvægi þeirra og leitt til skyndilegra skriðufalla.

Helgi Ómar segir að því miður hafi engar opinberar stofnanir gefið sífrera, urðarjöklum og urðarbingjum gaum eða hafi það hlutverk að vakta þá. Hann leggur því til að Náttúrustofa Íslands, í samvinnu Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Breiðdalsvík og stofnanir á landsvísu taki að sér að vakta fyrirbrigðin. Austfirðingar eigi einnig sérfræðing, Ágúst Guðmundsson á Fáskrúðsfirði, sem rannsakað hafi fyrirbrigðin ítarlega.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í síðustu viku. Hægt er að panta áskrift hér.