Neituðu að samþykkja fjárhagsáætlun Vopnafjarðarhrepps
Minnihluti sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps neitaði að samþykkja fjárhagsáætlun hreppsins fyrir næsta ár á fundi sveitarstjórnar í síðustu viku.
Fjárhagsáætlunin var engu að síður samþykkt með fjórum atkvæðum meðan þrír fulltrúar Vopnafjarðarlistans sátu hjá en sú gerir ráð fyrir heildartekjum 2023 upp á rúmlega 1,5 milljarð króna, veltufé áætlað 166 milljónir og að handbært fé í árslok næsta árs nemi 10 milljónum króna. Gjaldskrár sveitarfélagsins hækka í takti við verðlagsbreytingar.
Ástæður þess að minnihlutinn skrifaði ekki undir áætlunina eru allnokkrar að því er fram kom í sérstakri bókun Vopnafjarðarlistans af þessu tilefni. Veigamest þó það sem minnihlutinn kallar skort á stefnumörkun og framtíðarsýn.
„Í þeirri fjárhagsáætlun sem nú liggur fyrir sveitarstjórn eru engin merki um framtíðarsýn. Að sjálfsögðu er fjármunum varið í mörg góð og gild verk – og flest þeirra nauðsynleg – en engin áætlun liggur fyrir um hvað gerist næst. Vopnafjarðarlistinn hefur áður óskað eftir stefnuplaggi meirihlutans og einhverjum vegvísi um hvert meirihlutinn stefnir með sveitarfélagið. Hvernig sveitarfélag ætlar Vopnafjarðarhreppur að vera? Engar vísbendingar eru um það í þriggja ára áætlun og metnaður til uppbyggingar virðist ekki til staðar. Vopnafjarðarhreppur verður að sækja fram ef sveitarfélagið á að vera samkeppnishæft. Það er ekki nóg að sinna bara viðhaldi heldur verður hreppsnefnd að sýna íbúum Vopnafjarðar þá virðingu að stöðnun sé ekki í boði – heldur uppbygging.“