Skip to main content

Nokkuð í land að Hallormsstaðaskóli teljist háskóli

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 01. jún 2022 11:15Uppfært 01. jún 2022 11:25

Enn er nokkuð í land að Hallormsstaðaskóli teljist sem háskóli, ef marka má svör Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttir ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar við fyrirspurnum Jódísar Skúladóttur, þingmanns Norðausturkjördæmi, á Alþingi nýverið. Ráðherrann telur tækifæri fyrir skólann felast í samstarfi við aðra skóla.


Jódís benti á að rekstrarsamningur við skólann hefði verið óbreyttur frá árinu 2017, sem sé í raun skerðing miðað við hækkandi laun og verðlag síðan.

Hún spurði hvað skólinn þyrfti að uppfylla til að geta talist til háskólastigsins þar sem hann hefði sýnt metnað í þá átt síðustu ár. Skólinn, sem í fyrra fékk viðurkenningu sem einkaskóli á framhaldsskólastigi, er með námslínu í sjálfbærni og sköpun sem telst á fjórða hæfniþrepi og er kennt sem viðbótarnám við framhaldsskóla, sem samsvarar fyrsta ári háskóla samkvæmt aðalnámskrá.

Í fyrirspurn Jódísar kemur fram að margir þeirra nemenda sem hafi áhuga á náminu hafi þegar lokið háskólanámi og sækist eftir meistaranámi. Þar sé um að ræða bæði erlenda nema og frumkvöðla með ákveðnar hugmyndir. Eins þyrftu framhaldsskólakennarar að geta tekið námið sem hluta af endurmenntun á meistarastigi.

Skólinn hefur fengið til sín bæði doktorsmenntaða fagstjóra, verið í samvinnu við erlenda háskóla og fengið til sín háskólanema í rannsóknar- og þróunarverkefni.

Áslaug Arna svaraði að til að fá viðurkenningu sem háskóli þurfi meðal annars rektor með doktorspróf, óháð mat erlendra sérfræðinga auk þess að uppfylla ýmsar kröfur um faglega þekkingu og stuðning við fræðasamfélag. Ráðherra getur þó veitt viðurkenningu til starfa á háskólastigi án úttekt erlendra sérfræðinga.

Áslaug Arna benti á að samkvæmt reglum dygði nám á Hallormsstað ekki til að öðlast námslok á háskólastigi en vísaði til annarra skóla sem eru með grunnnám og síðan samning við viðurkennda háskóla um að ljúka því. Jódís svaraði að slíkt samstarf gæti stundum leitt til togstreitu því ekki séu allir skólar tilbúnir til að deila nemendum á þann hátt þegar greiðslur til skóla velti á fjölda nemenda.

Áslaug Arna svaraði hvorki spurningum Jódísar um hvort hún hygðist beita sér fyrir að koma Hallormsstaðaskóla upp á háskólastig né að bæta fjárhag skólans beint en benti á að skólinn heyri í dag undir mennta- og barnamálaráðuneytið.