Norsku loðnuveiðiskipin á leiðinni út
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 09. feb 2023 10:49 • Uppfært 09. feb 2023 10:50
Fjölmörg norsk loðnuveiðiskip hafa leitað vars í austfirskum höfnum í vikunni vegna brælu á miðunum. Á annað hundrað norskra sjómanna voru á Fáskrúðsfirði þegar mest lét.
„Hér voru um 150-70 manns. Við lánuðum þeim bíla til að fara í Vök, síðan skoðuðu þeir sig um hér, spiluðu fótbolta í íþróttahúsinu og kíktu á Sumarlínu.
Flestallir bátarnir hafa síðan farið út í gær eða stefna það í dag,“ segir Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar.
Frá Fáskrúðsfirði er um fimm tíma sigling á miðin úti fyrir Austfjörðum. Norsku skipin mega ekki mikið sunnar en sem nemur Fáskrúðsfirði. „Það var engin veiði í nótt vegna veðurs en vonandi verður það betra í dag.
Það var mikið að sjá en dálítið djúpt fyrir helgi hjá norsku bátunum. Síðan hefur í raun verið bræla og þess vegna leituðu þeir hingað í skjól,“ segir Friðrik en norsku skipin voru einnig mörg á bæði Eskifirði og Seyðisfirði til að mynda.
Norsku skipin mega veiða í íslenskri lögsögu til 22. febrúar. Þau eru búin að veiða um 8 þúsund tonn en eiga um 40 þúsund eftir. Það sem ekki veiðist af norska kvótanum leggst við þann íslenska. Síðasta loðnulöndun var á mánudag.
Íslensku skipin eru búin að veiða tæp 9000 tonn af um 180 þúsund tonna kvóta. Þau íslensku skip sem eru á veiðum eru úti fyrir Hornafirði, sunnan við Hvítinga. Þau bíða flest eftir hrognavertíðinni, þar með talið Hoffell, skip Loðnuvinnslunnar.
„Við munum nota okkar kvóta í hrognatöku. Hoffellið fer einn túr á kolmunna áður en það byrjar á loðnu. Skipið fór frá Færeyjum í morgun, þar hefur líka verið vont veður.“
Norsk skip á Fáskrúðsfirði um síðustu helgi. Mynd: LVF/Friðrik Mar Guðmundsson