Norsku skipin náðu kvótanum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 20. feb 2023 09:11 • Uppfært 20. feb 2023 09:12
Norðmenn náðu að veiða þann loðnukvóta, sem þeir gátu veitt í íslenskri lögsögu, um helgina.
Fjögur norsk skip lönduðu í gær samtals tæpum 2.600 tonnum í Færeyjum. Þar með er kvóti Norðmanna í íslensku lögsögunni fullveiddur og rúmlega það því norsku skipin fóru 740 tonn framyfir.
Veiðitími Norðmanna á loðnu í íslenskri lögsögu er til 22. febrúar. Hefði þeim ekki tekist að veiða sinn kvóta fyrir þann tíma hefði afgangurinn bæst við þann íslenska.
Handagangur var í lok síðustu viku þegar fjöldi norskra báta kom inn til löndunar, mest í Færeyjum en einnig á Austfjörðum. Landað var tæpum 10 þúsund tonnum síðasta fimmtudag.
Samkvæmt samantekt Loðnufrétta er hrognavertíð framundan því hrognafylling loðnunnar hefur nú náð 16%. Búið er að veiða um 27 þúsund tonn eða 15% af íslenska kvótanum. Íslensku skipin eru nú að veiðum undan Meðallandi.