Núverandi Axarvegur ekki gerður fyrir reglulega vetrarþjónustu
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 02. feb 2023 10:59 • Uppfært 02. feb 2023 11:28
Vegagerðin segir ekki hlaupið að því að auka vetrarþjónustu á núverandi Axarvegar vegna þess hvernig hann liggur í landinu. Reynt hefur verið að ganga lengra en reglur segja til um í von um að halda leiðinni opinn lengur inn í haustið og fyrr á vorin. Aðstæður breytast með nýjum vegi.
Þetta kom fram á íbúafundi um væntanlegan Axarveg sem haldinn var fyrir skemmstu með þátttöku fulltrúa Vegagerðarinnar.
Núverandi Axarvegur fellur undir G-reglu Vegagerðarinnar. Heimilt er að moka slíka vegi tvo daga í viku frá 1. nóvember til 20. mars á meðan snjólétt er, það er að ekki teljist ófært eða þæfingur á leiðinni og hægt að moka með snjómokstursbíl.
Heimilt er að ryðja vegina einu sinni í viku til 5. janúar á kostnað Vegagerðarinnar. Eftir það einu sinni í viku að beiðni og gegn helmingagreiðslu frá sveitarfélagi þannig að fært sé fyrir fjórhjóladrifin ökutæki og/eða að kostnaður við moksturinn sé ekki að jafnaði meiri en þrefaldur þess kostnaðar sem fellur til þegar ófært er.
Íbúar á Djúpavogi hafa sérstaklega þrýst á að snjómokstur á veginum verði aukinn. Á fundinum sagði Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, að stofnunin teldi núverandi Axarveg ekki tækan til frekari vetrarþjónustu en þeirri sem felst í G-reglunni. Ástæðan er meðal annars sú að hann er grafinn niður í landið þannig að snjór safnast á hann.
Bergþóra sagði hins vegar að Vegagerðin túlkaði regluna opið og hefði bæði vor og haust reynt að bregðast við aðstæðum á Öxi. Þannig hefði verið stungið í gegnum skafla á Öxi í haust þar sem tíðin var almennt góð.
Bergþóra minnti á að fjárheimildir mörkuðu Vegagerðinni líka ramma í mokstri en sagðist skilja þrýsting frá íbúum í bæði þéttbýli og dreifbýli um aukna þjónustu. Hjá Vegagerðinni stendur nú til að leggjast ítarlega yfir þörf á snjómokstri á landsvísu.
Til stendur að gera nýjan veg yfir Öxi sem miðað við núverandi áætlanir yrði tilbúinn árið 2027. Þeim vegi yrði lyft upp úr landinu, meðal annars til að koma í veg fyrir snjósöfnun og um leið skapast forsendur fyrir að halda leiðinni betur opinni. Gert er ráð fyrir að sá vegur fari í þjónustuflokk 3 sem eru vegir sem haldið er opnum 3-5 daga á ári.