Nýjasta skip flotans landaði í fyrsta sinn á Eskifirði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 14. mar 2023 08:32 • Uppfært 13. mar 2023 21:32
Margrét EA 70, nýjasta skip íslenska flotans, landaði sínum fyrsta farmi á Eskifirði á sunnudag. Það voru 2000 tonn af loðnu.
Skipið var smíðað í Noregi árið 2008 en kemur hingað frá Skotlandi þar sem það hét Christina S. Það kom til Reykjavíkur síðasta miðvikudag eftir siglingu frá Skotlandi og í kjölfarið var hafist handa við að uppfylla tilskilin leyfi samkvæmt íslenskum reglugerðum um fiskiskip.
Margrét hélt á loðnumiðin út af Reykjanesi á föstudagsmorgun og nokkrum klukkustundum eftir að komið var á miðin var búið að dæla úr nótum fjögurra skipa um borð í Margréti, sem sigldi með hráefnið austur til vinnslu.
Í frétt á vef Samherja, sem á skipið, er haft eftir skipstjóranum Hirti Valssyni að allt ferlið hafi gengið afar vel. „Allt var klappað og klárt síðdegis á fimmtudeginum en mín bjartsýnasta spá var að það yrði hugsanlega við lok föstudagsins, þannig að þetta gekk allt saman vonum framar. Það eru fjölmargir þættir í ferlinu sem þurfa að ganga upp en með góðri og þéttri samvinnu allra tókst að ljúka þessu á innan við tveimur sólarhringum og halda á miðin út af Reykjanesi.
Skipið fór frá Skotlandi á sunnudegi og innan við viku síðar er sem sagt landað hérna á Eskifirði. Geri aðrir betur segi ég nú bara. Loðnuvertíðin er líklega á lokametrunum, þannig að hver sólarhringur er dýrmætur.“
Búast má við að handagangur verði í öskjunni þessa vikuna enda síðustu forvöð að veiða loðnukvóta ársins. Samkvæmt nýjust tölum frá Loðnufréttum er enn þriðjungur hans eftir.
Mynd: Samherji