Skip to main content

Nýr kjarasamningur hjá Alcoa Fjarðaáli

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 08. mar 2023 07:32Uppfært 08. mar 2023 07:32

AFL starfsgreinafélag, Rafiðnaðarsamband Íslands og Alcoa Fjarðaál gengu frá nýjum kjarasamningi á mánudag. Samningurinn er til tveggja ára og gildir frá síðustu mánaðarmótum en þá rann eldri samningur út.



Í tilkynningu kemur fram að samningurinn byggi á þeim samningum sem gerðir hafi verið milli stéttarfélaga og atvinnurekenda síðustu vikur og mánuði. Samningurinn verður kynntur á næstu dögum fyrir félagsfólki sem greiðir um hann atkvæði. Þeirri atkvæðagreiðslu lýkur á miðnætti 19. mars.

„Við erum ánægð með að hafa lokið gerð og undirritun kjarasamnings sem tekur við af eldri samningi. Nú fer nýr samningur í dóm félagsmanna sem kjósa um hann,“ er haft eftir Hjördísi Þóru Sigurþórsdóttur, formanni AFLs.

„Það er ánægjulegt að ná að ljúka kjarasamningi og láta kynna hann og setja í dóm félagsmanna. Það skiptir sköpum fyrir okkar fólk að fá launahækkun á þessum tímum mikillar verðbólgu og auknum útgjöldum heimilanna,“ sagði Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins.

„Það er ánægjulegt að náðst hafi samkomulag um nýjan samning um leið og sá eldri rann út og vert að þakka samninganefndum félaganna og Alcoa Fjarðaáls fyrir markvissa og góða vinnu við gerð þessa samnings,“ sagði Einar Þorsteinsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls.

Undirritunin fór fram í húsnæði álversins á Reyðarfirði. Vöfflur boru bakaðar í mötuneytinu eftir það, eins og hefð er fyrri við undirritun kjarasamninga.

Samninganefndir AFLs, RSÍ og Alcoa Fjarðaáls. Mynd: Aðsend