Skip to main content

Nýr prestur í Heydali

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 24. jan 2023 13:55Uppfært 24. jan 2023 14:48

Sr. Arnaldur Arnold Bárðarson hefur verið skipaður nýr prestur í Austfjarðaprestakall. Hann verður með bækistöð á prestssetrinu að Heydölum í Breiðdal.


Sr. Arnaldur, sem síðustu ár hefur starfað á Eyrarbakka, var eini umsækjandinn um stöðu prests sem auglýst var í Austfjarðaprestakalli um síðustu áramót. Biskup Íslands hefur nú staðfest ráðningu hans að fengnu áliti valnefndar.

Arnaldur er fæddur á Akureyri árið 1966, lauk námi frá guðfræðideild Háskóla Íslands árið 1995 og vígðist til prestsþjónustu í Raufarhafnarprestakalli ári síðar. Hann varð síðar prestur á Hálsi í Fnjóskadal og Glerárkirkju á Akureyri.

Árið 2017 gekk hann í þjónustu norsku kirkjunnar og starfaði þar til 2017. Hann snéri þá aftur til Íslands og varð sóknarprestur í Eyrarbakkaprestakalli og í Þorlákshöfn en síðar prestur í Árborgarprestakalli.

Hann bætti við sig meistaraprófi í menntunarfræðum frá Háskólanum á Akureyri og framhaldsnámi í guðfræði frá MF í Osló.

Eiginkona Arnaldar er sr. Ingibjörg Jóhannsdóttir. Hún var áður prestur í norsku kirkjunni en er nú sérkennslustjóri á leikskóla í Garðabæ. Þau eiga fimm syni og sex barnabörn. Í tilkynningu Þjóðkirkjunnar kemur fram að þau muni flytja í Heydali í mars.

Austfjarðaprestakall varð til við sameiningu fimm prestakalla árið 2019 og nær frá Brekkusókn í Mjóafirði til Hofssóknar í Álftafirði í suðri.

Mynd: Þjóðkirkjan