Nýr prestur í Heydali

Sr. Arnaldur Arnold Bárðarson hefur verið skipaður nýr prestur í Austfjarðaprestakall. Hann verður með bækistöð á prestssetrinu að Heydölum í Breiðdal.

Sr. Arnaldur, sem síðustu ár hefur starfað á Eyrarbakka, var eini umsækjandinn um stöðu prests sem auglýst var í Austfjarðaprestakalli um síðustu áramót. Biskup Íslands hefur nú staðfest ráðningu hans að fengnu áliti valnefndar.

Arnaldur er fæddur á Akureyri árið 1966, lauk námi frá guðfræðideild Háskóla Íslands árið 1995 og vígðist til prestsþjónustu í Raufarhafnarprestakalli ári síðar. Hann varð síðar prestur á Hálsi í Fnjóskadal og Glerárkirkju á Akureyri.

Árið 2017 gekk hann í þjónustu norsku kirkjunnar og starfaði þar til 2017. Hann snéri þá aftur til Íslands og varð sóknarprestur í Eyrarbakkaprestakalli og í Þorlákshöfn en síðar prestur í Árborgarprestakalli.

Hann bætti við sig meistaraprófi í menntunarfræðum frá Háskólanum á Akureyri og framhaldsnámi í guðfræði frá MF í Osló.

Eiginkona Arnaldar er sr. Ingibjörg Jóhannsdóttir. Hún var áður prestur í norsku kirkjunni en er nú sérkennslustjóri á leikskóla í Garðabæ. Þau eiga fimm syni og sex barnabörn. Í tilkynningu Þjóðkirkjunnar kemur fram að þau muni flytja í Heydali í mars.

Austfjarðaprestakall varð til við sameiningu fimm prestakalla árið 2019 og nær frá Brekkusókn í Mjóafirði til Hofssóknar í Álftafirði í suðri.

Mynd: Þjóðkirkjan


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.