Óbreytt staða eftir nóttina

Engin tíðindi hafa borist af ofanflóðum á Austfjörðum í nótt. Úrkoma síðustu klukkutíma virðist mest hafa fallið sem slydda á láglendi.

Samkvæmt upplýsingum frá ofanflóðadeild Veðurstofunnar eru engin teljandi tíðindi eftir nóttina. Þar fylgjast sérfræðingar með mælitækjum en eystra er snjóathugunarfólk að búa sig út til að skoða aðstæður.

Mesta úrkoma á landinu það sem af er degi er á Fáskrúðsfirði, um 18 mm en tæplega 14 mm á Eskifirði og rúmlega 10 á Teigarhorni í Berufirði.

Samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar virðast slyddumörk neðarlega þannig snjó er ekki farið að taka upp sem er hagstætt gagnvart krapaflóðum. Von er á að síðar í dag hlýni í veðri.

Vegum á svæðinu var í gærkvöldi lokað vegna hættu á skriðuföllum. Er þar meðal annars um að ræða vegina um Fagradal, frá Norðfjarðargöngum til Neskaupstaðar og leiðinni allri frá Reyðarfirði að Höfn. Þá eru vegirnir um Vatnsskarð og Fjarðarheiði lokaðir og á óvissustigi.

Appelsínugul viðvörun er í gildi á norðanverðum Austfjörðum til miðnættis vegna snjókomu sem leitt gæti til snjóflóða. Klukkan þrjú bætist við viðvörun vegna asahláku og krapaflóða sem fyrst skapast hætta á á sunnanverðum Austfjörðum.

Mynd: Landsbjörg

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.