Skip to main content

Öll hreyfing stöðvast á Seyðisfirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 01. des 2022 12:00Uppfært 01. des 2022 12:00

Ekki er lengur talin ástæða til að vara við umferð um skriðu- og lækjarfarvegi á Seyðisfirði líkt og verið hefur í rúma viku og göngustígur upp með Búðará er opinn á ný. Öll hreyfing sem verið hefur á fjallshlíðunum þar hefur stöðvast.


Þetta kemur fram í yfirliti Veðurstofu Íslands sem hefur verið daglegt undanfarnar vikur. Staðan nú þykir orðin það trygg að ekki verða daglegar tilkynningar þótt áfram verði fylgst með svæðinu.

Þurrt hefur verið á Seyðisfirði síðan á sunnudagskvöld. Ekki er spáð úrkomu aftur fyrr en í lok næstu viku og þá búist við snjókomu.

Allar jarðvegshreyfingar hafa stöðvast, þar með talið á hryggnum utan við Búðará sem færðist um 12 sm. í vætutíðinni í nóvember.

Vatnshæð hefur lækkað í öllum borholum nema einni sem stendur í stað. Búist er við að vatnsstaðan lækki áfram í ljósi þess að þurrt er orðið í veðri.

Á Fljótsdalshéraði hefur vatnshæð Lagarfljóts við Fellabæ hækkað um 10 sm. í morgun. Hún er þó mun lægri en í flóðinu fyrir rúmri viku og má segja að fljótið sé aftur farið að nálgast eðlilegt rennsli.