Öll hreyfing stöðvast á Seyðisfirði

Ekki er lengur talin ástæða til að vara við umferð um skriðu- og lækjarfarvegi á Seyðisfirði líkt og verið hefur í rúma viku og göngustígur upp með Búðará er opinn á ný. Öll hreyfing sem verið hefur á fjallshlíðunum þar hefur stöðvast.

Þetta kemur fram í yfirliti Veðurstofu Íslands sem hefur verið daglegt undanfarnar vikur. Staðan nú þykir orðin það trygg að ekki verða daglegar tilkynningar þótt áfram verði fylgst með svæðinu.

Þurrt hefur verið á Seyðisfirði síðan á sunnudagskvöld. Ekki er spáð úrkomu aftur fyrr en í lok næstu viku og þá búist við snjókomu.

Allar jarðvegshreyfingar hafa stöðvast, þar með talið á hryggnum utan við Búðará sem færðist um 12 sm. í vætutíðinni í nóvember.

Vatnshæð hefur lækkað í öllum borholum nema einni sem stendur í stað. Búist er við að vatnsstaðan lækki áfram í ljósi þess að þurrt er orðið í veðri.

Á Fljótsdalshéraði hefur vatnshæð Lagarfljóts við Fellabæ hækkað um 10 sm. í morgun. Hún er þó mun lægri en í flóðinu fyrir rúmri viku og má segja að fljótið sé aftur farið að nálgast eðlilegt rennsli.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.