Skip to main content

Öll tæki komin af stað til að ryðja

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. des 2022 08:46Uppfært 21. des 2022 08:54

Vegagerðin á Austurlandi hefur ræst út öll þau snjómoksturstæki sem hún hefur yfir að ráða til að moka vegi sem fylltust af snjó í bylnum síðustu tvo daga. Viðbúið er að Vatnsskarð og Fjarðarheiði opnist ekki fyrr en síðar í kvöld.


„Við erum með öll tæki úti núna að reyna að opna það sem lokaðist. Þau eru bæði að vinna á láglendi og fjöllum,“ segir Jens Hilmarsson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni í Fellabæ.

„Það var farið snemma af stað í morgun og við stefnum að því að vera með allt opið fyrir kvöldið,“ bætir hann við.

Stutt er í að Möðrudalsöræfi opnist þótt bílar séu fastir í Langadal sem taka þarf tillit til. Mokstursbíll er á leið upp á Vatnsskarð en viðbúið er að tíma takist að komast yfir, þar er mikill snjór.

Senda þarf snjóblásara upp á Fjarðarheiði þannig hún, líkt og Vatnsskarðið, opnast ekki fyrr en síðar í dag. Þar er líka yfirgefinn bíll. „Það er mikill snjór á heiðinni. Þar eru ákveðnir staðir sem eru snjóakistur og þær eru alveg pakkaðar, það hefur allt lamist niður. Við höfum fengið eitthvað af snjó síðustu daga. Þekktir skaflastaðir í til dæmis Hróarstungu eru troðfullir.“

Jens segir að þótt heiðin og skarðið opnist í dag verði leiðin vart meira en einbreið þannig hægt verði að komast í gegn. Viðbúið er að minnsta kosti á Fjarðarheiðinni taki næstu tvo daga að opna hana svo vel sé.

Á Fagradal varð umferðarslys í morgun og eru vegfarendur því beðnir um að fara með gát. Þokkalega hefur gengið að halda honum opnum síðustu daga.

Moksturstæki eru einnig á ferð á fjörðunum, svo sem út með Fáskrúðsfirði, í Berufirði þar sem er þæfingur, á leiðinni til Breiðdalsvíkur og milli Norðfjarðar og Reyðarfjarðar.

Þæfingur er merktur í kortum Vegagerðarinnar í Fannardal, í Eskifirði og Berufirði en þungfært í Tungu. Á þessum stöðum er mikill snjór og stendur til að moka betur. Annars er hálka eða snjóþekja þar sem ástandið er þekkt. Ófært er og lokað í Skriðdal.