Ofanflóðavarnir í Lambeyrará orðnar virkar
Framkvæmdum er að mestu lokið við ofanflóðavarnir í Lambeyrará á Eskifirði. Þar með eru slíkar varnir komnar upp í fjórum ám á Eskifirði.Eiginlegum framkvæmdum, það er uppbyggingu varna, lauk í desember í fyrra. Þær eru þar með orðnar virkar. Búið er að dýpka og breikka farveginn auk þess að byggja meðfram honum leiðigarða til að taka við flóðum sem kunna að koma niður hann.
Framkvæmdum lýkur endanlega í sumar þegar gengið veður frá áningarstöðum og lóðum.
Farvegurinn er sá fjórði sem tekinn er í gegn á Eskifirði. Áður hefur verið lokið við farvegi Bleiksár, Ljósár og Hlíðarendaár. Eftir er að gera varnir við Grjótá. Hönnun og skipulagsferli er ekki lokið þar.
Á Norðfirði lauk framkvæmdum við snjóflóðavarnir undir Urðarbotnum og Sniðgili. Engar frekari ofanflóðavarnir eru á næstu grösum í Fjarðabyggð. Í byrjun mars stendur þó til að kynna hönnun á snjóflóðavörnum undir Nes- og Bakkagili.