Óska eftir að Fjarðabyggð efni sitt varðandi gamla barnaskólann á Eskifirði

Hollvinasamtök gamla barnaskólans á Eskifirði kalla eftir upplýsingum frá Fjarðabyggð hvenær og hvernig sveitarfélagið hyggst efna loforð um frágang lóðar og umhverfis kringum skólahúsnæðið.

Sem mörgum er kunnugt hefur verið unnið að endurgerð gamla skólahússins á Klifi frá árinu 2015 þegar frumkostnaðaráætlun var gerð en þremur árum síðar komu áhugasamir á fót sérstökum hollvinasamtökum til að leiða verkefnið áfram. Hefur því miðað vel síðan og komin er ágæt mynd á hlutina innanhúss. Búið er að rétta af alla veggi hússins og smíði á sviði er lokið. Framundan er að nýta gamlan panel hússins til að klæða sal og gang auk þess að ljúka raf- og pípulögnum á efri hæð.

Við verkið hefur að langmestu leyti verið stuðst við upprunalegar teikningar hússins sem er eitt þeirra elstu á Eskifirði en það var byggt árið 1910 og húsið lengt lítillega árið 1929. Framkvæmdum við húsið sjálft gæti lokið um mitt næsta ár ef allt gengur að óskum.

Hollvinafélagið vill þó gjarnan fá að vita hvenær Fjarðabyggð ætlar að klára sinn hluta verksins sem er frágangur á lóð við húsið en byggingin er að öllu leyti í eigu sveitarfélagsins. Fjarðabyggð hefur þegar lagt út fyrir sérstökum stoðvegg fyrir ofan skólann en töluverð vinna er þó eftir við snyrtingu og að gera aðgengi gott fyrir gesti og gangandi.

Þá stendur og til að fara í samstarf við íbúasamtök Eskfirðinga og aðra um hvert framtíðarhlutverk hússins skuli vera en það stendur töluvert fyrir ofan Strandgötuna og víðsýnt inn og út fjörðinn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.