Skip to main content

Óska eftir að óháður aðili yfirfari mál starfsmanns félagsmiðstöðvar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 15. des 2022 10:59Uppfært 15. des 2022 11:30

Stjórn Íbúasamtaka Eskifjarðar óskar eftir því að óháður aðili verði fenginn til að kanna mál starfsmanns félagsmiðstöðvarinnar Knellunnar á Eskifirði sem sendur var í leyfi frá störfum vegna kvörtunar. Sveitarfélagið segir málið enn í vinnslu.


Þetta kemur fram í sameiginlegri ályktun núverandi og fráfarandi stjórna Íbúasamtakanna eftir aðalfund sem haldinn var í síðustu viku. Þar er sú málsmeðferð sem starfsmaðurinn, Jóhann Valgeir Davíðsson, hafi hlotið af hálfu Fjarðabyggðar hörmuð og óskað eftir því að óháður aðili verði fenginn til að yfirfara málið og verkferla.

Jóhann Valgeir skýrði frá því sjálfur í Facebook-færslu í byrjun mánaðarins að honum hefði verið tilkynnt í lok október um að kvörtun vegna vinnu hans í félagsmiðstöðinni hefði verið sett í rannsókn hjá yfirmönnum hans. Á meðan væri hann í launalausu leyfi. Jafnframt hefði honum skriflega verið tilkynnt að til skoðunar væri að segja honum upp störfum vegna brots í starfi.

Jóhann Valgeir segir þar að kvörtunin komi frá einu foreldri vegna þess að hann hafi sýnt börnum sjónvarpsþætti bannaða yngri en 16 ára og vanvirt börnin. Jóhann Valgeir hafnar þar ásökunum, segist hvorki hafa sýnt myndina né vanvirt börnin. Ásakanirnar hafi komið það illa við hann að hann sjái sér ekki fært að starfa þar áfram.

Erindi Íbúasamtakanna var lagt fyrir bæjarráð á mánudag. Þar kemur fram að erindinu hafi verið svarað sem trúnaðarmáli.

Þær upplýsingar fengust hjá Fjarðabyggð í gær að sveitarfélagið gæti ekki tjáð sig efnislega um málefni einstakra starfsmanna að öðru leyti en því að málið væri enn í vinnslu og samskipti í gangi við viðkomandi aðila.