Rarik tengir saman Austurland og Suðurland í fyrsta sinn

Til stendur að tengja saman dreifikerfi Rarik á Austurland og Suðurlandi með viðamikilli lagningu strengja á árinu sem er nýhafið. Tæpir 50 km af rafstrengjum voru færðir í jörð á þessu ári.

Þetta kemur fram í framkvæmdayfirliti fyrir síðastliðið ár sem birt hefur verið á vef Rarik. Þar segir að á Austurlandi, sem samkvæmt skilgreiningu telur með Hornafjörð en sleppir Vopnafirði, hafi á síðasta ári verið lagðir 48 km af jarðstrengjum.

Þremur slíkum verkefnum er lokið og lagning við Djúpavog og í Hamarsvirði langt komin. Rafstrengir í jörðu bæta töluvert afhendingaröryggi þar en um mánaðamótin september/október var mikið um truflanir á svæðinu eftir að selta settist á línurnar þar í óveðri.

Á Djúpavogi er búið að tengja kassaverksmiðju Bewi. Vegna þess var kerfið frá Teigarhorni út á Djúpavog styrkt. Þá kemur fram að 11 kV rofabúnaður í aðveitustöð á Stuðlum hafi verið endurnýjaður á árinu. Á Vopnafirði er veri að byggja yfir spenna. Þar var í desember lokið uppsetningu 33/11 kV spennis í aðveitustöðinni vegna tengingar við Þverárvirkjun, sem gangsett var í nóvember. 33 kV strengur var lagður vegna hennar.

Rarik hefur unnið að því að setja upp nýtt fjargæslukerfi fyrir rekstur sinn. Á Norðurlandi er því að mestu lokið. Uppsetning er hafin á Austurlandi og lýkur á árinu.

Á Hornafjarðarsvæðinu hefur verið unnið í miklum strenglagningum. Annars vegar frá tengivirki að Hólum að Almannaskarðsgöng, 6 km leið. Á næsta ári verður strengur lagður í gegnum göngin. Að sunnanverðu stendur til að leggja streng 32ja km leið yfir Skeiðarársand. Með því verður sendir Neyðarlínunnar á Skeiðarársandi rafvæddur í fyrsta sinn sem eykur verulega öryggi heimafólks og gesta. Um leið verða Austurland og Suðurland tengd saman í gegnum dreifikerfi Rarik í fyrsta sinn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.