Ók í snarhasti með soninn í aðgerð í Reykjavík eftir bilun hjá Icelandair
Bilun í vél Icelandair til Egilsstaða í gærkvöldi olli því að hársbreidd munaði að piltur sem átti að fara í stóra aðgerð á Landspítalanum í Reykjavík snemma í morgun kæmist undir hnífinn. Til þess þurfti hann og faðir hans að drífa sig út í bíl seint í gærkvöldi og aka greitt alla leið suður.
Vandræði var á kvöldfluginu í gærkvöldi til Egilsstaða en bilunum þar um að kenna. Icelandair tilkynnti farþegum í flug sitt um seinkun klukkustund fyrir brottför og ítrekuðu seinkun fram eftir kvöldi þangað til fluginu var að lokum aflýst með öllu.
Eiginmaður og sonur Kolbrúnar Nönnu Magnúsdóttur á Egilsstöðum voru tveir af þeim sem bókað áttu flug suður en sonurinn átti að fara í aðgerð í höfuðborginni upp úr klukkan 8 í morgun.
„Svo kemur þessi tilkynning um sex-leytið um seinkun og svo önnur tilkynning og í þeirri stöðu var ekkert annað að gera en drífa sig út í bílinn og aka suður til að drengurinn kæmist í aðgerðina. Það tókst á endanum enda greitt ekið og mildi að vegurinn var auður nánast alla leið suður. Sjálf fór ég sjálf suður á undan þeim þannig að ég bara beið hér og vonaði það besta.“
„Svæfingalæknirinn lét okkur vita að það væri hægt að bíða til svona 11 í morgun ef þetta hefði ekki gengið upp á tíma en ef eitthvað hefði verið að færð eða eitthvað komið upp á hefði drengurinn þurft að bíða fram á sumar eftir að komast aftur að fyrir sunnan. En þetta slapp til og aðgerðin gekk hratt og vel fyrir sig.“
Kolbrún skýrði frá þessum vandræðum í fésbókarhópnum Dýrt innanlandsflug - þín upplifun en þar eru margir aðrir sem sjá fram á lengri bið eftir læknisþjónustu fyrir sunnan fyrir vikið.
„Ég hef lengi skoðað þessa síðu og veit vel af óánægju með ýmsu þjónustu flugfélagsins en aldrei áður tjáð mig sjálf fyrr en nú. Það breytist ekkert ef fólk tjáir sig ekki um hlutina. Svo er auðvitað hundfúlt að nú þarf eiginmaðurinn að keyra bílinn til baka austur einn síns liðs.“